Frumvarp til laga um meðferð sakamála, bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi Miðflokksins um breytingu á lögum um meðferð sakamála, bann við myndatökum og hljóðupptökum í dómhúsum (sjá hér)

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að víkka gildissvið 1. mgr. 11. gr. laga um meðferð sakamála um bann við myndatökum og hljóðritun af aðilum að sakamálum, sem eru á leið í dómhús eða frá því, án samþykkis þeirra. Er slíkt ákvæði að norskri og danskri fyrirmynd.

Ákvæðinu er ekki ætlað að ná til myndatöku og hljóðritunar sem fram fer á vegum dómstólsins sjálfs, og eru þar hafðar í huga þær upptökur sem eru eðlilegar við rekstur dómstólsins, svo sem hljóðritun á framburði vitna og hefðbundin notkun öryggismyndavéla. Þá er gert ráð fyrir því að dómari geti heimilað myndatöku og hljóðritun með sérstöku leyfi og er þar átt við upptökur er ekki snerta aðila dómsmáls, sem eru í dómhúsinu vegna málsins. Má hér hugsa sér myndatöku vegna almennrar fréttar um dómstólinn eða viðtals við dómara o.s.frv.

Mjög hefur færst í vöxt að reynt sé að ná myndum af aðilum og vitnum í dómsmáli þegar þeir sinna erindum sínum í dómhúsum. Einkum á þetta við í opinberum málum. Undanfarin ár hefur jafnvel verið tíðkað að beina myndavélum inn í dómsali þegar dyr eru opnaðar meðan á þinghaldi stendur, svo sem þegar nýtt vitni gengur í salinn. Leiðir það til þess að hinn ákærði og vitni þurfa jafnan að hafa vara á sér að þessu leyti meðan á þinghaldinu stendur í stað þess að einbeita sér að málsvörn sinni eða vitnaleiðslu. Þykja þessar aðstæður vera til þess fallnar að trufla málsaðila, enda hafa þær slæm áhrif á bæði sakborninga og vitni. Dæmi eru um að vitni hafi viljað koma sér undan því að bera vitni vegna þessa. Einnig er ljóst að tækninni hefur fleygt fram hvað varðar farsíma, spjaldtölvur og myndavélar þannig að unnt er t.d. að taka myndir af skjölum í dómsal eða skjölum í fórum sakborninga eða vitna í dómhúsi. Slíkar myndatökur geta haft óeðlileg áhrif á gang mála.

Sú takmörkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu gengur ekki of nærri meginreglunni um opin þinghöld að mati flutningsmanna, enda er ekki verið að takmarka möguleika fjölmiðla eða annarra til að sækja þinghald og fylgjast með því sem þar fer fram. Þvert á móti verður aðgangur áfram opinn og fjölmiðlum frjálst að fylgjast með og greina frá framgangi dómsmála. Þá er ekki heldur verið að auka heimildir dómara til að mæla fyrir um að þinghald fari fram fyrir luktum dyrum.

Frumvarpið í heild sinni má lesa hér.

Frumvarpið gengur nú 2. umræðu og til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Flutningsræðu Þorsteins og umræður um málið í þingsal má sjá hér

Flutningsmaður: Þorsteinn Sæmundsson

Meðflutningsmenn:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson.