Frumvörp er lúta að íslenskri tungu

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. 

Ólafur ræddi tvö frumvörp sem lúta að íslenskri tungu sem nú liggja fyrir Alþingi, en samkvæmt umsögnum frá kunnáttufólki verður ekki séð að þessi tvö frumvörp rími saman og hafa fræðimenn harðlega gagnrýnt frumvarp dómsmálaráðherra.   Hann spurði forsætisráðherra hvort hún teldi að með frumvarpi dómsmálaráðherra væri ríkisvaldið að styðja og vernda íslenska tungu og hvort forsætisráðherra styðji frumvarpið.

Hér má lesa fyrirspurn Ólafs í heild sinni:

"Herra forseti. Fyrir Alþingi liggja tvö frumvörp sem lúta að íslenskri tungu. Forsætisráðherra gerir að tillögu sinni í frumvarpi um breytingar á stjórnarskrá að íslenska skuli vera ríkismál Íslands og skuli ríkisvaldið styðja hana og vernda. Hið sama eigi við um íslenskt táknmál. Hitt frumvarpið er unnið frá dómsmálaráðherra og er um breytingu á mannanafnalögum. Miðað við umsagnir kunnáttufólks um síðartalda frumvarpið verður ekki séð að þessi frumvörp rími saman. Tímans vegna get ég ekki vitnað nema til einnar umsagnar en hún er frá dr. Guðrúnu Kvaran. Hún er höfundur ritsins Nöfn Íslendinga og gerþekkir íslenskan nafnaforða. Undrun vekur að við smíð frumvarpsins hafi ekki verið leitað til þeirra sem gerst þekkja. Í umsögn sinni rifjar Guðrún Kvaran upp að mennta- og menningarmálaráðherra hafi boðað átak til að efla íslenska tungu. Hún segir að því beri að fagna ef af verður og bætir við, með leyfi forseta:

„ … en ekki löngu síðar er lagt fram frumvarp sem vinnur beinlínis gegn íslensku mál- og beygingarkerfi, stjórnarfrumvarp. Ótrúlegt.“

Álit sitt rökstyður Guðrún með vísan til ákvæða frumvarpsins og greinargerðar. Í ljósi harðrar gagnrýni Guðrúnar Kvaran og fleiri mikilsvirtra fræðimanna á frumvarp dómsmálaráðherra spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Telur hún að með frumvarpi dómsmálaráðherra sé ríkisvaldið að styðja og vernda íslenska tungu? Styður hæstv. forsætisráðherra frumvarp dómsmálaráðherra?"

Upptöku úr þingsal má sjá hér