Fylgjast þarf með verðhækkun á nauðsynjavörum

Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður tók til máls í Störfum þingsins í dag og benti á að brýnt sé að fylgjast vandlega með þeim verðhækkunum á nauðsynjavörum sem nýlega hafa orðið þar sem almenningur og heimilin í landinu hafi nú minna milli handanna sökum atvinnuleysis í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Í ræðu sinni sagði Þorsteinn: 

"Herra forseti. Afleiðingar kórónuveirunnar hafa komið mjög fram í efnahagslífi þjóðarinnar, eins og öllum er kunnugt, og m.a. í því að gengi krónunnar hefur sigið mjög harkalega. En upp á síðkastið, síðustu viku eða svo, hefur borið svo við að það lítur út fyrir að hún sé aðeins að hressast. Lækkun krónunnar hefur komið mjög harkalega fram í vöruverði. Það virðist ekki vera að þeir sem stunda verslun á Íslandi hafi mikla meðlíðun með því þegar krónan sígur eins skart og hún hefur gert. Nú verður spennandi að fylgjast með hvort menn muni færa verð til baka þegar krónan styrkist þó að ég efist um það. Þeir sem höndla með neysluvörur á Íslandi hafa undanfarandi kannski ekki alveg risið undir trausti. Það má m.a. sjá á því hvernig innflutningi á landbúnaðarafurðum hefur verið háttað undanfarandi. Þar hafa komið fram misbrestir í tollafgreiðslu sem nú eru til rannsóknar. Það ríður á miklu fyrir almenning í landinu og heimili, þar sem atvinnuleysi er mjög algengt og menn hafa minna milli handanna en annars hefur verið, að þeir sem höndla með nauðsynjavörur sýni ábyrgð og festu.

Kaupmenn hafa líka haldið því fram að það sé vegna launahækkana sem þeir hafa hækkað verð á nauðsynjum. Nú er það þannig, herra forseti, að þegar ég fer í matvöruverslun háttar þannig til að búið er að fækka þar afgreiðslukössum um líklega sjö af tíu. Ég verð þá að álykta að þar sem þessir sjö eru sjálfvirkir hafi þeir þrír starfsmenn sem eftir sitja fengið svona rosalega kauphækkun fyrst launahækkanir eru svona ríkur þáttur í því að verðið hafi hækkað. Með þessum málum þarf að fylgjast vandlega, herra forseti."

Upptöku af ræðu Þorsteins í þingsal má sjá hér.