Breytt fyrirkomulag á skimun fyrir leghálskrabbameini

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi um þau vandkvæði sem komið hafa upp með breyttu fyrirkomulagi á skimun fyrir leghálskrabbameini í störfum þingsins í dag:

Hæstvirtur forseti. Undanfarnar vikur hefur mikið verið fjallað um breytt fyrirkomulag á skimun fyrir leghálskrabbameini meðal íslenskra kvenna. Viðbrögð þeirra stjórnvalda sem í hlut eiga eru ýmist að drepa málinu á dreif eða fullyrða að um óþarfa ótta sé að ræða. Konum er ýmist sagt að þær fái upplýsingar um niðurstöðu skimunar inni á island.is eða á heilsuvera.is.  Fjöldi fólks er ekki með rafræn skilríki sem dæmi. Konur vilja upphringingu eða vinsamleg bréf með niðurstöðu og réttum leiðbeiningum um næstu skref.
Enn eru engin svör komin úr skimunarsýnum sem tekin hafa verið á þessu ári. Í því fyrirkomulagi sem var við lýði fram til síðustu áramóta var með bréfi gefið upp símanúmer hjá Krabbameinsfélagi Íslands eða Sjúkrahúsinu á Akureyri og gengið frá tíma í framhaldinu. Það kann að vera að það sé ekki dagaspursmál að fá niðurstöðu um hvort frumubreytingar hafa átt sér stað en öll bið og óvissa vikum og mánuðum saman veldur konum kvíða og áhyggjum. Þetta varðar fjölskyldur þeirra og þar með okkur öll.
Hæstvirtur heilbrigðisráðherra, er þetta í fullri alvöru ykkar besta boð til íslenskra kvenna og fjölskyldna þeirra rétt fyrir sumarmál 2021? Fyrir rúmum mánuði áttu konur fund með um þetta mál með heilbrigðisráðherra og afhentu 5.440 undirskriftir undir áskorun vegna málsins. Hættið nú að hunsa þetta bréf og viðvaranir frá fagfélagi lækna og fleirum. Landspítalinn segist geta birt niðurstöður úr sýnum innan þriggja vikna. Einhverjar konur hafa beðið eftir niðurstöðum sýna frá því í desember á síðasta ári og vita ekkert hvar sýnin eru staðsett í dag. Þetta er óviðunandi staða í boði hæstvirts heilbrigðisráðherra.

 RÆÐU SIGURÐAR PÁLS í þingsal MÁ SJÁ HÉR