Grásleppuveiðar verði settar í kvóta

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í dag í störfum þingsins og ræddi um grásleppuveiðar:

"Það var í fréttum nú í hádeginu að ráðherra hefði fengið afhentan undirskriftalista frá grásleppukörlum þar sem yfir 54% leyfishafa veiðanna hefðu skrifað undir að þeir væru hlynntir því að grásleppuveiðar færu undir aflamark, eða yrðu kvótasettar. Í hópi þessara 54% leyfishafa eru 80% þeirra sem stundað hafa veiðarnar undanfarin ár því að mörg leyfi hafa ekki verið nýtt. 64 umsagnir hafa borist um málið inn á samráðsgátt og þar sýnist sitt hverjum en meiri hluti þar hefur verið með því að grásleppuveiðar verði settar í kvóta.

Það er í fersku minni frá síðustu vertíð þegar úthlutun Hafró veiddist upp á stuttum tíma og hafa menn haft áhyggjur af því að sú staða geti komið upp aftur ef ekkert verður gert í málinu. Ég hef kallað eftir því að þetta mál fái efnislega meðferð í þinginu. Frumvarp um það er fast inni í ríkisstjórn. Mér finnst undarlegt að ríkisstjórn hinnar breiðu skírskotunar geti ekki komið sér saman um að svona mál fái afgreiðslu og komi til umræðu í þinginu. Þetta mál er með öðrum málum um staðbundnar veiðar hryggleysingja, sæbjúgna, ígulkerja o.fl., sem munu þá líka ekki fá afgreiðslu ef þetta mál kemst ekki áfram. Ég kalla eftir því að ríkisstjórnin komi sér saman um að þetta mál komist á dagskrá þingsins fyrr en seinna því að stutt er til næstu vertíðar í grásleppuveiðum."

Upptöku af ræðu Sigurðar Páls úr þingsal má finna hér.