Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga fyrir börn með klofinn góm og skarð í vör/góm

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundibúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni til heilbrigðisráðherra um reglugerð varðandi greiðsluþátttöku sjúkratrygginga fyrir meðferð og tannréttingar barna með klofinn góm og skarð í góm eða vör.

"Ekki svo að ég vilji koma hingað upp og hljóma eins og rispuð plata en þetta er þriðja árið í röð sem ég beini fyrirspurn til hæstvirts heilbrigðisráðherra og spyr um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í meðferð og tannréttingum þeirra barna sem fæðast með klofinn góm eða skarð í góm eða vör. Þar er einn hópur barna sem hefur orðið út undan í kerfinu bókstaflega, en um er að ræða örfá börn hér á landi."

"Það er augljóst og óumdeilt að ef ekkert er að gert í flestum tilvikum skarðabarna munu þau lenda í alls kyns erfiðleikum með sína heilsu. Það snýr til að mynda að mörgu hvað varðar tennur og tannheilsu, tal- og málþroska, öndun og almennt hvað varðar svo einfaldan hlut eins og að matast og svona mætti áfram lengi telja. Fyrir utan allt þetta getur frestun á inngripi stóraukið hættunni á því að börnin eigi sálrænum erfiðleikum í uppvextinum, svo að ég tel að hér sé um mjög brýnt mál að ræða, hvernig sem á það er litið. Þá er því einnig svo háttað að síðbúin inngrip geta verið miklu kostnaðarsamari, sársaukafyllri og tekið lengri tíma.  

Það á að sjálfsögðu ekki að fara eftir efnahagslegri stöðu foreldra hvernig tekið er á fæðingargöllum barna sem fæðast hér á landi. Við getum ekki verið þekkt fyrir að lagfæring á fæðingargöllum, sem skaðar bæði líkamlega og andlega heilsu barna, markist af efnahag foreldranna. Við hljótum að vilja sem samfélag að styðja fjárhagslega við aðgerðir sem ætlað er að bæta líf, heilsu og líðan barna sem fæðast með slíkan fæðingargalla. Þar á ekki að skipta máli hver efnahagur foreldranna er.

Hver hefur sagan verið í þessu máli? Reglugerðin var löguð 2018. Hún var síðan aftur löguð 2019. Foreldrarnir fengu synjun 2018, 2019 og í dag því eftir því sem fregnir herma hafa nýlega þrennir foreldrar sem eiga slík börn fengið synjun enn og aftur við beiðni þeirra um kostnaðarhlutdeild sjúkratrygginga. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrigðisráðherra: Er reglugerðin eins og hæstv. ráðherra vill helst hafa hana eða telur hún að það þurfi að breyta henni enn og aftur og er verið að fylgja henni?"

 

Fyrirspurn Karls Gauta og svar heilbrigðisráðherra í þingsal má sjá hér