Heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu - Tillaga til þingsályktunar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mælti fyrir þingsályktunartillögu sinni um að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu á Alþingi í gær.  

Þingsályktunartillagan leggur til að fela mennta- og menningarmálaráðherra að heiðra minningu Margrétar hinnar oddhögu með því að reisa henni minnisvarða. Minnisvarðinn skal reistur í Skálholti verði því komið við. Ráðherra kynni áætlun þess efnis eigi síðar en á vorþingi 2021.  Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.

Margrét hin oddhaga var prestsfrú og útskurðarmeistari, samtímakona hins merka biskups, Páls Jónssonar (1155-1211).   Menn hafa sett fram kenningu um að hönd prestsfrúarinnar Margrétar hafi komið að hinum merku taflmönnum sem fundust í Ljóðhúsum á Suðureyjum (á Lewis eyjum) árið 1831, norðvestan við Skotland. Flestir taflmannanna eru skornir í rostungstönn en sumir úr búrhvalstönn. Eru 78 þeirra úr manntafli en fjórtán eru líklega hnefataflsmenn.

 

Taflmennirnir frá Ljóðhúsum

Þrátt fyrir að uppruni taflmannanna hafi ekki, og verði líklega seint, staðfestur að fullu er ljóst að Margrét hin oddhaga var merk kona sem á 12. öld var talin færust allra á Íslandi í útskurði.  Flutningsmenn telja að Íslendingum væri sómi að því að koma upp minnismerki um Margréti hina oddhögu til að heiðra minningu þessarar merku konu. Margrét hin oddhaga er ein örfárra listkvenna í veröldinni sem getið er með nafni og uppi voru á miðöldum.

Flutningsmenn leggja til að minnisvarðinn verði í Skálholti, verði því við komið, þar sem Margrét starfaði í þágu biskups við iðn sína.

 

Flutningsræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér

Málið gengur nú til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Meðflutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru:  Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Oddný G. Harðardóttir, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.