Gjaldtaka af innanlandsflugi þarfnast endurskoðunar

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni til fjármála- og efnahagsráðherra.  Spurði hann ráðherra hvers vegna gjaldtaka af innanlandsflugi hafi haldist óbreytt á meðan hún var felld niður á Keflavíkurflugvelli og hvort til greina komi að endurskoða þetta og þá jafnvel með afturvirku uppgjöri gjaldenda.

Bergþór:  "Virðulegur forseti. Mig langar við þetta tækifæri að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra um innanlandsflug og stöðu þess. Ég tók mál upp í umræðu um fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025, þann 6. október sl., við hæstv. samgönguráðherra sem sneri að því hvernig á því stæði að gjaldtaka af innanlandsflugi hefði ekki verið lækkuð til samræmis við það sem var gert í Keflavík strax og Covid brast á. Samgönguráðherra benti þá á það réttilega að fyrrverandi aðstoðarmaður samgönguráðherra ætti að þekkja það að Isavia er auðvitað á forræði fjármálaráðherra, eins og hæstv. samgönguráðherra sagði, með leyfi forseta:

„Isavia heyrir undir fjármálaráðuneytið hvað rekstur varðar. […] Það hafa engin skilaboð farið frá samgönguráðuneytinu um það hvernig stjórn eða stjórnendur Isavia eiga að haga sér í einstökum málum sem varða viðskiptavini þeirra.“

Af þessu verður ekki ályktað annað en að samskiptin hafi farið í gegnum fjármálaráðuneytið hvað þetta varðar. Staðan er sú núna að meira og minna öll gjöld hafa verið felld niður í Keflavík, sem má segja að sé eðlilegt í því ótrúlega ástandi sem flugið býr við þessa mánuðina og misserin. En í innanlandsflugi hefur verið tekið fullt gjald allan þann tíma en veittir ákveðnir greiðslufrestir sem nú eru liðnir að megninu til.

Mig langar við þetta tækifæri að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Hvers vegna var sú ákvörðun tekin að gjaldtaka af innanlandsflugi héldist óbreytt á meðan hún var felld niður á Keflavíkurflugvelli? Í öðru lagi: Kemur til greina að endurskoða þetta og þá jafnvel með afturvirku uppgjöri gjaldenda?

Svar ráðherra og andsvar Bergþórs má sjá hér