Í aðdraganda kosninga

Sigurður Páll Jónsson tók til máls í störfum þingsins á Alþingi í dag:

"Í kórónuveirufaraldrinum hefur tilhneiging fjölmiðla um allan heim verið sú að lýsa ástandinu þannig að vel takist til í baráttunni heima fyrir, á meðan allt sé í kalda kolum annars staðar. Prófessor í stjórnmálafræði segir þetta sýna hvernig heimsmyndin skekkist þegar hvert og eitt samfélag neyðist til að loka sig nánast alveg af eins og raunin varð í faraldrinum.

„Þegar færri eru á ferð og heimurinn lokast svona, þá skekkist svo mikið myndin af því hvernig ástandið er annars staðar. Það er hægt að segja okkur fréttir frá ástandi sem við upplifum þá ekki sjálf og fáum ekki tækifæri til þess að upplifa,“ segir prófessorinn. Það séu nú ýmsar viðsjár í veröldinni sem þurfi að líta til núna þegar hinni heilsufarslegu vá sé að létta.

Allt svona ástand, sem verður langvarandi og lokar okkur af, hvert inni í sínu samfélagi og við komumst ekki á milli, það skapar svona skekkju sem getur leitt til tortryggni og andúðar.  Stóra hættan er sú að við fáum ekki aftur það samfélag sem var hér áður. Við fáum ekki það frelsi, það frjálsræði og réttindi sem við höfðum fyrir faraldurinn. Höft kalla á enn frekari höft.

 Hvað með fréttir hér á Fróni af raunverulegri pólitík? Mun þeim höftum ljúka og mun þeim linna? Ríkisstjórnin hefur skákað í því skjólinu að við höfum verið með sóttvarnayfirvöld sem hafa staðið sig mjög vel. Lítið sem ekkert af pólitískum álitamálum kemst í fréttir en nú í aðdraganda kosninga ber ég þá von í brjósti að pólitíkin og mál allra flokka fái þá athygli sem þau eiga skilið fyrir komandi kosningar."

Ræðu Sigurðar Páls í þingsal má sjá hér