Jákvæðar fréttir af Alþingi

"Jákvæðar fréttir af Alþingi rata ekki alltaf í fjölmiðla. Í dag er hægt að flytja jákvæðar fréttir af Alþingi." sagði Þorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, í Störfum þingsins á Alþingi í dag. 

"Eins og fram kom í upphafsorðum forseta í upphafi þessa fundar var skrifað undir samning í morgun um að hafist yrði handa við að steypa upp skrifstofuhúsnæði Alþingis sem hefur verið í undirbúningi nú um dálítinn tíma. Á þessum undirbúningstíma hefur verið kappkostað, og ég veit að það verður áfram, að halda við upphaflega kostnaðaráætlun og gera húsið vel úr garði en á eins hagkvæman hátt og hægt er. Þetta hús mun náttúrlega breyta starfsemi Alþingis gríðarlega, sérstaklega fyrir starfsfólk þingsins, nefndasviðið, fyrir þá sem eiga erindi við Alþingi, þ.e. koma til fundar við þingnefndir o.s.frv., auk þess sem þingmenn og þingflokkar fá bætta skrifstofuaðstöðu. En stærsta atriðið og það jákvæðasta er að þessi framkvæmd mun, þegar hún verður tekin í notkun, spara Alþingi 200 millj. kr. á ári sem hafa verið greiddar í leigukostnað undanfarin ár undir þá aðstöðu sem nú verður í þessu nýja húsi og starfsemi Alþingis þar með öll samtengd."

Að lokum sagði Þorsteinn: "Ég tek undir árnaðaróskir forseta þingsins til þeirra sem munu vinna í þessu húsi eftir 30 mánuði og síðar. Ég þykist vita það að þetta nýja hús verður Alþingi til mikilla heilla og sérstaklega þeim sem þurfa hér að vinna daglega."

 

Upptöku úr þingsal má sjá hér