Enn lengjast biðlistar eftir liðskiptaaðgerðum

Í störfum þingsins á Alþingi í dag ræddi Þorsteinn Sæmundsson um þann uppsafnaða fjölda á valkvæðum aðgerðum sem hafa þurft að víkja sökum hins mikla álags á heilbrigðiskerfið tengt heimsfaraldrinum.  Sem dæmi um valkvæðar aðgerðir eru hjartaþræðingar, liðskiptaaðgerðir o.s.frv.  Biðlistar eftir valkvæðum aðgerðum eru mjög langir og væri hægt að stytta þá umtalsvert ef samið væri við einkareknar stofur.

Þorsteinn: "Fram kom, í nýlegu svari heilbrigðisráðherra til þess sem hér stendur, að til standi að setja upp liðskiptasetur á Akranesi, en það á að taka til starfa í janúar 2022. Þannig að allt næsta ár og það sem eftir lifir af þessu munu hlaðast upp enn lengri biðlistar í liðskiptaaðgerðir. Nú þarf allar hendur á dekk, herra forseti. Það þarf að taka þeim boðum sem rétt eru fram um að létta undir í heilbrigðiskerfinu." 

"Í morgun las ég viðtal við konu nokkra sem rekur fyrirtæki sem boðist hefur til að taka við 130 sjúklingum af Landspítalanum og leysa þar með nokkurn fráflæðisvanda. Hún fær ekki svar. Og nú á eftir, í umræðum við heilbrigðisráðherra um þessi mál, verður að koma í ljós hvort heilbrigðisráðherra ætlar að láta af óbeit sinni á einkarekinni sjúkrahúsþjónustu og þiggja hjálpina sem að henni er rétt til að laga biðlista."  sagði Þorsteinn að lokum.

Upptöku af ræðu Þorsteins á Alþingi má sjá hér.