Verkfallsréttur lögreglumanna - Frumvarp til laga

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, sem lútar að verkfallsrétti lögreglumanna.

Verkfallsréttur lögreglumanna var afnuminn með lögum nr. 82/1986 sem fólu í sér breytingar á þágildandi lögreglulögum (223. mál á 109. löggjafarþingi). Fram til þess tíma höfðu lögreglumenn rétt til verkfalls líkt og aðrar stéttir innan Bandalags starfsmanna ríkis og bæja (BSRB) með þeim fyrirvara að skylt var að halda uppi nauðsynlegri öryggisgæslu á meðan á verkfalli stóð. 

Afnám verkfallsréttar var hluti af samkomulagi milli Landssambands lögreglumanna og fjármálaráðherra í júlí 1986. Kveðið var á um afnám verkfallsréttar í bókun við samkomulagið, en í stað þess skyldu lögreglumenn fá svokallaða kauptryggingu ef ekki næðust samningar um kjör þeirra. Kauptryggingin átti að fela í sér sömu meðalhækkun launa og bandalög opinberra starfsmanna fengju á hverjum tíma. 

 Landssamband lögreglumanna hefur um langt skeið reynt að ná fram kjarabótum fyrir lögreglumenn með litlum árangri. Að þeirra mati hafa lögreglumenn dregist aftur úr þeim viðmiðunarstéttum sem miðað var við í fyrrgreindu samkomulagi sem fól í sér afnám verkfallsréttarins. Ein ástæða þess er án efa sú staðreynd að lögreglumenn geta ekki gripið til þess neyðarúrræðis sem verkfallsrétturinn er, til jafns við aðrar stéttir samfélagsins, náist ekki viðunandi niðurstaða í viðræðum um kjaramál.

 Lögreglan sinnir afar mikilvægum störfum tengdum öryggi lands og þjóðar. Sú sérstaða virðist með núverandi fyrirkomulagi vinna gegn stétt lögreglumanna hvað kjaramál varðar frekar en að stuðla að auknum réttindum vegna mikilvægis þeirra í samfélaginu. Eðli málsins samkvæmt yrði verkfallsréttur lögreglumanna háður þeim fyrirvara að ávallt þarf að halda uppi neyðar- og öryggisþjónustu. Hins vegar væri fjöldinn allur af störfum innan lögreglunnar sem eigi að síður væri hægt að leggja niður væri slíkt talið nauðsynlegt til stuðnings kröfum um kjarabætur. Landssamband lögreglumanna hefur á undanförnum árum lagt áherslu á verkfallsréttinn í kjarabaráttu og hafa ýmis lögreglufélög á landsvísu ályktað í þá veru.

Með frumvarpinu er lagt til að verkfallsréttur lögreglumanna verði endurreistur með breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, á þá leið að 31. gr. þeirra verði felld úr gildi.  Málið er nú gengið til allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér.

Flutningsræðu Karls Gauta og umræður í þingsal má sjá hér

Flutningsmaður:  Karl Gauti Hjaltason

Meðflutningsmenn:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.