Misræmi í tollskráningu landbúnaðarvara

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni til ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Benti Bergþór á að á síðasta ári hafi komið fram að ósamræmi væri milli innflutningstalna ýmissa búvara til Íslands og útflutningstalna frá öðrum löndum, þ.e. ESB-löndum og Noregi. Þá renni skoðun starfshóps fjármálaráðuneytisins enn frekari stoðum undir það.

Fyrir liggur að innflutningur á svokölluðum jurtaosti hvarf nánast af innflutningsskýrslum frá og með september á síðasta ári. Alls voru á árinu flutt inn 216 tonn, þar af einungis 28 tonn síðustu fjóra mánuði ársins. Enginn innflutningur var t.d. frá Bretlandi á jurtaosti síðustu fjóra mánuði ársins en hafði á fyrstu átta mánuðum ársins að jafnaði verið tíu tonn á mánuði. Svo er einnig farið með innflutning frá fleiri löndum.

Bergþór spurði hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að hlutur innlendra framleiðenda búvara, sem hafa orðið fyrir tjóni vegna ólöglegs innflutnings, verði réttur með einhverjum hætti og þá hvernig.  Einnig spurði hann hvort það verði gert með auknum greiðslum til bænda eða hvort ráðherra muni beita sér fyrir því með fjármálaráðherra að skatturinn innheimti vangoldna tolla og aðflutningsgjöld þeirra innflutningsfyrirtækja sem fluttu jurtaostinn ólöglega inn í landið.

Fyrirspurn Bergþórs í heild sinni og svar ráðherra má sjá hér