Ofanflóðasjóður

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins í dag og ræddi um ofanflóðasjóð.  Benti hann á að á hverju ári safnast rúmlega 2 milljarðar í sjóðin auk vaxtagjalda en ekki virðast menn sammála um hversu mikið er í sjóðnum.  Komast þarf að því hversu mikið er til í ofanflóðasjóði og koma því hið snarasta til hjálpar á Flateyri, Seyðisfirði og þeirra staða þar sem ofanflóð og ógn vofa yfir.

Herra forseti. Við erum minnt á það reglulega hversu áríðandi það er að við sinnum ofanflóðavörnum. Við höfum um árabil innheimt sérstakt gjald, ofanflóðagjald, sem lengi vel fór í sjóð sem kallast ofanflóðasjóður. Samkvæmt síðasta ársuppgjöri hans, áður en fjármálaráðuneytið gerði hann upptækan, voru í sjóðnum nettó í kringum 16 milljarða kr. Þetta var í lok árs 2016. Á hverju ári safnast inn í þennan sjóð rúmir 2 milljarðar í ofanflóðagjöldum plús vaxtagjöld sem voru þá um 600–700 millj. kr. á ári þannig að það voru u.þ.b. 3 milljarðar á ári sem söfnuðust í þennan sjóð.
Ég segi þetta vegna þess að fyrir ári síðan, þegar flóð skall á Flateyri, sagði þáverandi stjórnarmaður í þessum sjóði, Halldór Halldórsson, í viðtali að uppsafnað í þessum ofanflóðasjóði væri um 23 milljarðar kr. Þetta var í janúar 2020. Í sama mánuði sagði hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að segja mætti að í sjóðnum væru 15 milljarðar, þ.e. í ríkissjóði sem tilheyrði þessum málaflokki. Þarna munar 8 milljörðum, herra forseti. Ég vek athygli á þessu vegna þess að nú erum við albúin til að koma til liðs við Seyðisfjörð, bæði hvað varðar uppbyggingu og ofanflóðavarnir, og það er nauðsynlegt vegna þess að fram kom hjá ríkisstjórninni um daginn að hún ætlaði að veita 1,6 milljarða aukalega í ofanflóðavarnir. En ríkisstjórnin er ekki að gera neitt slíkt, herra forseti. Þessir peningar eru til, þeir streyma inn í ríkissjóð á hverju ári upp á 2,5–3 milljarða. Það sem þarf að gera er að komast að því hversu mikið af peningum er til í ríkissjóði sem eru eyrnamerktar þessum málaflokki og taka síðan til hendinni og taka á, bæði á Seyðisfirði, Flateyri og fleiri stöðum þar sem ofanflóð og ógn vofir sífellt yfir.

Smellið hér til að sjá upptöku af ræðu Þorsteins