Okkur ber skylda að varðveita minningu Lennons

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, tók í dag þátt í störfum þingsins og ræddi um minnisvarða Johns Lennons:

"Í dag eru 40 ár síðan lífsbók Johns Lennons var skellt aftur af minnipokamanni vestur í New York sem skaut hann til bana fyrir utan húsnæði hans og þess er minnst nú í dag. Lennon og félagar hans breyttu heimsmynd hundruð milljóna ungmenna og heimurinn varð ekki samur eftir að þeir komu saman og unnu sín afrek og nota bene, herra forseti, þau stærstu afrek sem þessi hópur vann vann hann áður en þeir félagar urðu þrítugir. Það var enginn þeirra orðinn þrítugur þegar Bítlarnir hættu. Eftir að Bítlarnir hættu tók Lennon að sér að vera í fyrirsvari fyrir friðarhreyfingar. Hann fór að heiman og fór á þriggja ára fyllirí, kom til baka aftur og sinnti bökun og barnauppeldi en rétt áður en hann lést hafði hann gefið út plötu. Fyrsta lag þeirra plötu er nú svo merkilegt að það fjallar um nýtt upphaf. Hann hafði hugsað sér að ferillinn færi af stað af nýju með þessari plötu sem hann gaf út þarna rétt rúmlega fertugur að aldri, en því miður varð það ekki.

Okkur Íslendingum ber skylda til að varðveita menningu og minningu Lennons vegna þess að eftirlifendur hans völdu Ísland sem einn af þremur stöðum fyrir minningarreiti um John Lennon sem ásamt hér í Reykjavík eru staðsettir í New York og Tókíó. Að því leyti til tengist lífssaga hans Íslandi og við eigum að hafa það í heiðri. Höfum líka í heiðri það sem hann sagði sjálfur, lauslega snarað, herra forseti: Lífið er það sem gerist meðan við erum upptekin við önnur plön."

Upptöku af ræðu Þorsteins úr þingsal má sjá hér.