Lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, tók til máls í störfum þingsins á Alþingi í dag.  

Á morgun, 4. febrúar, er alþjóðadagur krabbameina og af því tilefni minnti Anna Kolbrún á þingsályktun sína um ráðstafanir til að lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og meðferðar við öðrum langvinnum og lífshættulegum sjúkdómum (sjá hér) sem samþykkt var á Alþingi þann 30. júní s.l.

Anna Kolbrún minnti jafnframt á að ráðherra hafi þar verið falið að skila skýrslu þar að lútandi eigi síðar en 1. mars n.k. (sjá hér).

Ræða Önnu Kolbrúnar í heild sinni:

"Hæstivirtur forseti.  Á morgun, 4. febrúar, er alþjóðadagur krabbameina. Ég vil því nota tækifærið til að minna á þingsályktun sem var samþykkt hér á Alþingi á síðasta ári, nánar tiltekið 30. júní. Hún fjallaði um ráðstafanir til að lágmarka kostnað vegna krabbameinsmeðferðar og vegna langvinnra og lífshættulegra sjúkdóma. Ráðherra var falið að skila skýrslu þar að lútandi eigi síðar en 1. mars nk. Það er nauðsynlegt að staðið verði við þessa ályktun; að greinast með krabbamein hefur áhrif á fjölmarga og við sjáum dæmi um það í átaki Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein, þessa dagana.

Ég vil líka nota tækifærið hér og vekja enn og aftur athygli á því að hækka á aldursviðmið kvenna í fyrstu brjóstaskimun úr 40 árum í 50. Ákvörðuninni var frestað og því vofir hún enn yfir. Rökin eru þau að það sé í lagi þar sem engin gögn styðji að rétt sé að miða við 40 ár. Eru þessi gögn til? Er til greining á því hversu margar konur greindust með skimun á aldursbilinu 40–49 ára, eða hversu margar greindust vegna einkenna? Á því er stór munur. Munum að á síðastliðnum árum hefur að meðaltali greinst 31 kona á milli 40–50 ára á ári og það hlýtur að skipta máli. Konur vilja taka ábyrgð á eigin heilsu. Við eigum að auka aðgengi í stað þess að standa í veginum."

Upptöku úr þingsal má sjá hér