Ráðstöfun útvarpsgjalds - Tillaga til þingsályktunar

Bergþór Ólason alþingismaður mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um ráðstöfun útvarpsgjalds. 

Tillagan er þess efnis að lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds skuli breytt þannig að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins til annarra fjölmiðla en Ríkisútvarpsins eins og hann kýs.  Allir þingmenn Miðflokksins eru meðflutningsmenn tillögunnar.

Með tillögu þessari er lagt til að unnið verði að breytingum á lögum um Ríkisútvarpið sem fela í sér breytt fyrirkomulag við innheimtu útvarpsgjalds. Lagt er til að landsmenn hafi valfrelsi um ráðstöfun hluta þessa gjalds. Þannig geti þeir með framlagi sínu tryggt tiltekinn fjölbreytileika í rekstri fjölmiðla landsins.

Með því að sitja eitt að þessum gjaldstofni hefur Ríkisútvarpið haft yfirburðastöðu gagnvart öllum öðrum fjölmiðlum, og gildir það um fréttaflutning og dagskrárgerð. Slík einokunarstaða, sérstaklega ríkismiðils, er óeðlileg nú á tímum og vinnur beinlínis gegn hugmyndum um sjálfstæði og fjölbreytni hugsunar og skoðana.

Um árabil hefur verið rætt um að takmarka umsvif Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og renna þannig styrkari stoðum undir frjálsa fjölmiðla. Augljóslega hefur slík útfærsla ekki hlotið brautargengi. Telja því flutningsmenn tillögunnar rétt að fara þessa leið með farsæld frjálsrar fjölmiðlunar fyrir augum og tryggja þannig heilbrigðari og fjölbreyttari þjóðmálaumræðu í landinu. 

Flutningsræðu Bergþórs í þingsal má sjá hér.

Þingsályktunartillögunna um ráðstöfun útvarpsgjalds má lesa hér