Um pólitíkina

Karl Gauti Hjaltason ræddi um pólitíkina í störfum þingsins í dag:

"Ég ætla að halda áfram þar sem frá var horfið í gær og ræða pólitíkina. Ég hafði rætt aðeins um hið nýja yfirbragð sem komið er á marga Sjálfstæðis- og Framsóknarmenn. Þeir hafa tekið upp málflutning okkar Miðflokksmanna í fjölmörgum málum, ég nefni sem dæmi andstöðu sumra þeirra við hálendisþjóðgarðinn, sem þeir eru þá bundnir af í stjórnarsáttmála. En athugið að jafnvel þótt þeir tali eins og Miðflokksmenn þá greiða þeir alltaf og ávallt atkvæði með vinstra liðinu. Einnig ræddi ég um heilbrigðiskerfið þar sem unnið er að fullkominni og grímulausri ríkisvæðingu allra þátta þess. Meira að segja þar hafa nokkrir úr fyrrnefndum hópi gagnrýnt þá vegferð sem hæstv. heilbrigðisráðherra er á, en með mun kurteisari og hógværari hætti en beitt var gegn þeirra eigin ráðherrum sem lent hafa í umbúðalausri orrahríð frá þessum sömu vinstri mönnum. Sjálfstæðisflokkurinn sýnist á harðaflótta frá eigin stefnu. Hann hefur breyst í hentistefnuflokk, segist berjast fyrir frelsi en er fastur í stjórnlyndishjónabandi með Vinstri grænum og Framsókn. Þannig hafa Sjálfstæðismenn orðið að sætta sig við að hæstv. heilbrigðisráðherra geri atlögu að öllum sjálfstæðum rekstri í heilbrigðiskerfinu.

Litlu verður Vöggur feginn. Nú kætast Sjálfstæðismenn yfir því að einkasölu ÁTVR sé breytt vegna götóttrar löggjafar fremur en að þeir hafi sjálfir staðið fyrir því að breyta því, og ætla svo að skreyta sig með fjöðrum frelsisins í því máli. Viðreisn er eins máls flokkur að því leyti að hann hefur haft af Samfylkingunni þeirra helsta baráttumál, að ganga í Evrópusambandið. Er Viðreisn flokkurinn sem þeir kjósa sem vilja ganga í Evrópusambandið? Og hvað er þá hægt að segja um Samfylkinguna? Sú fylking situr eftir sem einhvers konar hagsmunagæslubandalag háskólamenntaðs fólks sem hefur augljóslega ekkert samheiti við hinar vinnandi stéttir. Meira að segja gömlu borgaralegu kratarnir hafa verið hraktir úr flokknum og eru heimilislausir. Hvert fara þeir? Er verið að reisa þeim eitthvert heimili? Hvert er þessi fylking að fara, herra forseti? Það er næstum enginn munur á henni og Pírötunum. Það má varla á milli sjá. Sem merki um þetta er að tveir hv. þingmenn Vinstri grænna flúðu ríkisstjórnina. Fóru þeir hvor í sinn flokkinn, annar í Píratasöfnuðinn en hinn í raðir Samfylkingarinnar. Samt er ekki vitað til þess að á milli þessara hv. þingmanna sé nokkur minnsti málefnalegi munur. Er enginn munur á öllum þessum flokkum sem kennt hafa sig til vinstri í íslenskum stjórnmálum? Hvernig á venjulegur maður sjái muninn á þessu flokkakraðaki?"

Ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér