Rétt að fresta útboðum tollkvóta

Í störfum þingsins í dag tók Sigurður Páll Jónsson alþlingismaður til máls og ræddi um þær miklu kröfur sem gerðar eru til landbúnaðs á Íslandi um að fylgja almennum samkeppnisreglum, samanborið við nágrannalöndin.

"Líklega er hvergi í nágrannalöndum okkar, sem við berum okkur gjarnan saman við, gerðar jafnmiklar kröfur til landbúnaðar um að fylgja almennum samkeppnisreglum og gert er hér á landi. Þvert á móti eru víðtæk frávik frá þeim í gildi. Vísast þar m.a. til nýbirtrar skýrslu frá Lagastofnun Háskóla Íslands um undanþágur frá samkeppnisreglum er varða samstarf milli búvöruframleiðenda í ljósi EES- og ESB-réttar.

Landbúnaðarmarkaðir í Noregi hafa víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum. Í 3. gr. samkeppnislaga er undanþága frá 10. og 11. lið sem samsvarar 101. gr. og 102. gr. í sáttmálanum um fiskveiðar og landbúnað. Markmiðið er að bæta og koma á stöðugleika í tekjum fyrir bændur. Undanþágan er mótuð víða þar sem hún gerir bændum kleift að gera hvers konar samninga, t.d. til að laga verð og magn, sem misnota markaðsráðandi stöðu. Markaðshegðun verður að vera í samræmi við lög, reglugerðir eða árlegan samning milli Bændasamtakanna og stjórnvalda. Undanþágan er þó takmörkuð þar sem samkeppnishamlandi aðgerðir verða að vera í samræmi við landbúnaðarstefnu eða landbúnaðarreglur. Það eru aðallega bændasamfélögin sem hafa leyfi til að stjórna því magni, að ekki verði heimilt að vinna með samkeppnisaðilunum.

Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður á nú í vök að verjast. Fyrir liggur að misbrestir hafi orðið í tollaframkvæmd landbúnaðarvara undanfarin misseri. Útganga Bretlands úr ESB um komandi áramót er enn fremur staðreynd. Er þá ekki rétt að öllum útboðum tollkvóta verði frestað um sinn meðan ráðrúm gefst til þess að fara yfir þessi mál svo öllum sé ljóst hvert stefna skal og stjórntækjum hins opinbera beitt með samræmd markmið að leiðarljósi?"

Upptöku af ræðu Sigurðar Páls í þingsal má finna hér