Samkeppnisstaða stóriðju á Íslandi

"Í þeirri stöðu sem uppi er í efnahagslegu tilliti er vont að horfa til þess að ein af þremur meginstoðum gjaldeyrissköpunar sé í jafn mikilli óvissu og raunin er."  Þetta sagði Bergþór Ólason í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær þegar hann beindi fyrirspurn sinni að iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um stöðu stóriðjunnar á Íslandi. 

"Við fáum af því fréttir að eigendur álversins í Straumsvík horfi til þess að álverinu verði lokað ef ekki kemst á talsamband sem skilar niðurstöðu á milli þeirra og Landsvirkjunar. Á sama tíma kemur fram að Norðurál á Grundartanga telji sig ekki ná talsambandi við fulltrúa Landsvirkjunar varðandi það m.a. að undirbyggja 40 milljarða framkvæmd sem skilar verulegum fjölda starfa á framkvæmdatímanum og 40–50 langtímastörfum." 

Bergþór spurði ráðherra hver staðan væri á skýrslu með úttekt á samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi sem var áætlað að yrði lokið í lok maí s.l. samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Stjórnarráðsins.  "Nú stöndum við hér í nóvember, fimm mánuðum eftir áætluð skil, og mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hvenær skýrslunnar sé að vænta." Ennfremur spurði Begþór hvað ráðherra sæji fyrir sér sem næstu skref stjórnvalda gagnvart stóriðjufyrirtækjunum sem meta stöðu sína greinilega mjög ótrygga.

 

Fyrirspurn Bergþórs, svör ráðherra og umræðuna í heild sinni má sjá hér