Sérstök umræða um skipulagða glæpastarfsemi

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var málshefjandi að sérstakri umræðu um skipulagða glæpastarfsemi á Alþingi í dag.  Til andsvara var dómsmálaráðherra.

Sigmundur óttast að Íslendingar séu að missa tökin á skipulagðri glæpastarfsemi og í raun jafnvel búnir að því að umtalsverðu leyti.   Glæpamenn misnota hælisleitendakerfið og ekki hafa verið stigin nauðsynleg skref til að stemma stigu við þessari þróun.  Ræðu Sigmundar í heild sinni má lesa hér: 

Ástæða er til að óttast að Íslendingar séu að missa tökin á skipulagðri glæpastarfsemi og raunar búnir að því að umtalsverðu leyti. Skýrslur greiningardeildar ríkislögreglustjóra frá 2017 og 2019 sýna þetta á sláandi hátt. En hvernig hefur verið brugðist við? Hvað hefur verið gert?Hæstvirtur ráðherra skrifaði grein um málið nýverið og fjallaði fyrst og fremst um aukna áherslu á samskipti, samstarf, samráð, samræmingu milli lögregluembætta á Íslandi, m.a. með stofnun sérstaks stýrihóps. Það er auðvitað gott og blessað að efla samstarf milli lögregluembætta á Íslandi, hafi verið skortur á því. Auk þess fylgdi almennt tal um alþjóðlegt samstarf, m.a. í gegnum Europol sem hefur raunar verið til staðar lengi. Lögreglunni áskotnaðist fé vegna árangurs í aðgerðum gegn sölu fíkniefna sem hefur nýst henni að nokkru og auk þess hefur verið talað um í þessu samhengi aukna áherslu á fræðslu og endurmenntun lögreglunnar. En í hverju felst þessi fræðsla, þessa aukna áhersla á endurmenntun lögreglunnar? Af umfjöllun fjölmiðla að dæma virðist þetta einkum vera fræðsla um leyfilega orðræðu og táknfræði. Lögreglumenn hafa kvartað við mig yfir því að verið sé að kenna þeim orðræðu og setja þá á alls konar rétttrúnaðarnámskeið fremur en að búa þá undir verkefni sem verður sífellt erfiðara viðfangs. Engin ástæða er til að ætla að lögreglan á Íslandi sé haldin einhverjum sérstökum fordómum en samt er talað eins og hún þurfi sérstaka endurmenntun á því sviði. Fyrrverandi dómsmálaráðherra, hv. þm. Sigríður Á. Andersen, leitaðist við að rétta kúrsinn hvað þetta varðaði en það virðist lítið hafa gerst síðan þá.
Hvað með úrræðin sem lögreglan kallar eftir, tækjabúnað, þekkingu, mannafla, heimildir til að takast á við þennan breytta veruleika? Hvað með að laga kerfið, t.d. með því að gera okkur kleift að vísa glæpamönnum umsvifalaust úr landi? Og hvað með að bregðast við út frá því hvernig hlutirnir eru, ekki hvernig þeir ættu að vera? Skýrslur greiningardeildarinnar eru góðar vegna þess að þær lýsa vandanum eins og hann er í raun. Þær lýsa fjölgun erlendra glæpagengja og hvernig þau eru að breyta afbrotaheiminum á Íslandi með aukinni hörku, með meira framboði sterkra fíkniefna, kókaíni ekki hvað síst, með mansali, með farandafbrotahópum og skýrslurnar gera líka ítarlega grein fyrir því hvernig þessir hópar misnota hælisleitendakerfið og velferðarkerfið á Íslandi. Hælisleitendakerfið er bæði notað til að koma inn glæpamönnum og fórnarlömbum þeirra, auk þess að selja fólki væntingar en leggja það í hættu og hafa jafnvel af því aleiguna eða hreppa það í ánauð.
Er verið að taka á vandanum eins og hann er í raun? Það sýnist mér ekki, þvert á móti. Hvað leggur ríkisstjórnin til við þessar aðstæður? Annars vegar lögleiðingu fíkniefna og hins vegar breytingar á hælisleitendakerfinu sem ganga þvert á það sem önnur Norðurlönd eru að gera til að koma í veg fyrir að kerfið sé misnotað af glæpagengjum, ekki hvað síst. Hér verður misnotkun kerfisins gerð enn meira aðlaðandi. Það verður auðveldara að tæla fólk hingað, selja því aðgang að kerfinu. Þessar breytingar ríkisstjórnarinnar eru gjöf til glæpagengja sem munu eiga auðveldara með að selja fíkniefnin og lögreglan erfiðara með að grípa inn í.
Má ekki nefna að kerfið sé misnotað? Jú, við hljótum að þurfa að gera það, rétt eins og gert er í skýrslu greiningardeildarinnar því það gerir okkur kleift að takast á við hinn raunverulega vanda. Starfsemi erlendra glæpagengja bitnar iðulega fyrst og fremst á erlendum ríkisborgurum eða fólki af erlendum uppruna og hælisleitendum sem eiga raunverulega rétt á að fá hér hæli. Í Svíþjóð fóru menn þá leið að ræða þetta ekki, lögðu í rauninni bann við því. Hver var afleiðingin? Svíar misstu gersamlega stjórn á ástandinu, öll tök. Á árinu 2019 reyndist Svíþjóð vera mesta glæpaland Evrópu í alþjóðlegum samanburði. Það ár voru gerðar 257 sprengjuárásir í Svíþjóð. Umfang skipulagðrar glæpastarfsemi er þegar orðið umtalsvert á Íslandi. Íslensk stjórnvöld verða að bregðast við með afgerandi hætti, veita lögreglunni þau úrræði sem hún þarf á að halda. Við megum ekki við því að gera ástandið verra með breytingum sem auðvelda skipulagða glæpastarfsemi.

upptöku af ræðu Sigmundar davíðs og umræðuna í þingsal má sjá hér