Staðan í sóttvörnum

Bergþór Ólason tók þátt í óundirbúnum fyrirspurnartíma þriðjudaginn , 25. janúar, og spurði þar heilbrigðisráðherra um stöðuna í sóttvörnum. 

Frú forseti. Í umræðum um munnlega skýrslu heilbrigðisráðherra síðastliðinn fimmtudag spurði ég hæstv. ráðherra um mismunandi nálgun hvað varðar skimanir á landamærum annars vegar og innan lands hins vegar. Þá spurði ég hvort hugsanlegt væri að fjöldi fólks, að líkindum á fjórða þúsund, væri nú í einangrun að ósekju. Með skimun ferðamanna á landamærum var komist að því að stór hluti þeirra sem greindust smitaðir var ekki með virkt smit. Tölur benda til að það ætti við um fjórðung þeirra sem greindust á landamærunum. Aðrar tölur benda til að innan lands gæti þetta hlutfall verið nær þriðjungi.
Við skimanir innan lands hefur ekki verið gerður greinarmunur á virkum og óvirkum smitum heldur hafa allir verið settir undir sama hatt og allir sem greindir eru smitaðir settir í einangrun. Ég spurði hæstv. ráðherra hvers vegna þessari vísindalegu nálgun hefði ekki verið beitt innan lands heldur bara á landamærunum. Í svari benti hæstv. ráðherra á að hátt í 200 starfsmenn á Landspítalanum væru í einangrun og gætu ekki sinnt starfi sínu. Af þeim eru sennilega 50 til 70 manns í stofufangelsi að ósekju, sé hlutfall gamalla smita það sama í þeim hópi og á landamærunum. Þegar hæstv. heilbrigðisráðherra stóð á gati hvað þetta varðar síðastliðinn fimmtudag reiknaði ég með að til þess verks yrði gengið strax á föstudeginum að greina starfsmenn spítalans, sem eru í einangrun, með tilliti til þessa. Það kemur því á óvart að enn séu 200 starfsmenn Landspítalans í einangrun samkvæmt upplýsingum á vef Landspítalans rétt í þessu, á fimmta degi eftir að ráðherra sagði að hann myndi leita upplýsinga og útskýringa hvað þetta varðar.
Hæstv. ráðherra, ég verð því að spyrja: Hefur þetta ekki verið skoðað á þessum fimm dögum? Getur verið að enn séu á fjórða þúsund manns í einangrun án þess að vera með virkt smit? Er staðan mögulega enn sú að 50 til 70 starfsmenn Landspítalans séu í einangrun í stofufangelsi vegna gamals óvirks smits, starfsmenn sem gætu ekki smitað aðra þó að þeir vildu? Hæstv. ráðherra, getur þetta verið?

Fyrirspurnina má sjá í heild sinni hér.