Stjórnarskrárbreytingar eiga ekki að vera eins og hvert annað pólitískt deiluefni í þinginu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, tók til máls í sérstakri umræðu um stjórnarskrárbreytingar á Alþingi í dag.

Sigmundur telur það óheppilegt fyrirkomulag við breytingu á stjórnarskrá að tillögurnar séu lagðar fram sem hvert annað þingmannamál í pólitískum ágreiningi.   Þegar farið er í almennar lagabreytingar sé eðlilegt að menn takist á og ríkisstjórn knýr þá yfirleitt sitt í gegn, jafnvel þótt við það sé talsverð andstaða. En breytingar á stjórnarskrá á ekki að færa í það far því að hún gegnir því hlutverki að sameina og þess vegna breytast stjórnarskrár hægt og leitast er við að gera það í samstöðu.

"Sjálfur hef ég mestar áhyggjur af fullveldisákvæðinu svokallaða, sem er reyndar ekki lagt til að breytist í bili. En maður óttast hvað fylgir, sérstaklega ef hér er verið að leggja línurnar upp á nýtt um það hvernig staðið verði að stjórnarskrárbreytingum." 

Ennfremur sagði Sigmundur; "Mér finnst ekki fögur áferð á því að stjórnarskrárbreytingar séu lagðar fram sem þingmannamál í ágreiningi, talsverðum ágreiningi, eins og ég held að sé óhætt að segja eftir þessa fundi undanfarin misseri. Hættan er sú að málið þróist með þeim hætti að á næsta þingi eða þar næsta, með annars konar ríkisstjórn, muni menn fara að sams konar leið og stjórnarskrárbreytingar verði eins og hvert annað pólitískt deiluefni hér í þinginu. Það væri að mínu mati mjög óæskileg þróun. Ríkisstjórnin færi jafnvel aftur og aftur að breyta stjórnarskrá til að ná einhverjum pólitískum markmiðum í ljósi þess hvernig henni var breytt síðast. Því hef ég áhyggjur af því fordæmi sem gæti myndast með þessari aðferð." 

Fyrri ræðu Sigmundar má lesa í heild sinni hér og þá seinni hér.  Umræðuna í heild sinni má sjá á upptöku úr þingsal hér.