Breytingar á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð - Tillaga til þingsályktunar

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um breytingu á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.

Í tillögunni er dómsmálaráðherra falið að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málefna útlendinga og auka skilvirkni í málsmeðferð. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo að lögfesta megi nauðsynlegar breytingar á málaflokknum fyrir þinglok.

Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða.

Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með stærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Hefur þetta leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins sem fylgt hafa lögmáli veldisvaxtar. Hælisleitendur bíða í sumum tilvikum árum saman eftir því að fá niðurstöðu. Með því er mikið lagt á fólk sem hingað leitar. Um leið ýtir þessi staðreynd undir tilhæfulausar umsóknir. Slíkum umsóknum er sérstaklega beint að ríkjum þar sem frestunarmöguleikarnir eru mestir. Úr verður skaðleg keðjuverkun, ekki síst fyrir þá sem þurfa mest á hjálp að halda.

Hælisumsóknum hefur fjölgað hratt á Íslandi á undanförnum árum á sama tíma og þeim hefur fækkað í mörgum nágrannalöndum. Nú er svo komið að hælisumsóknir eru hlutfallslega flestar á Íslandi af öllum Norðurlandaþjóðunum (þær eru meira að segja fleiri en í Svíþjóð). Í fyrra voru slíkar umsóknir, miðað við íbúafjölda, fimmfalt fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi.

Á síðasta þingi lagði ríkisstjórnin fram frumvarp sem hefði tryggt þeim sem fá hæli á Íslandi, hvort sem þeir koma á eigin vegum eða annarra, löglega eða ekki, sömu þjónustu og ríkið veitir þeim kvótaflóttamönnum sem boðið er til landsins með atbeina Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Það tókst að koma í veg fyrir afgreiðslu þess málsins. Með samþykkt hefði verið settur stór rauður hringur um Ísland sem áfangastað í bókum þeirra sem selja fólki væntingar dýrum dómi og senda það af stað í hættulega óvissuferð. Með því hefði Íslandi verið tryggt heimsmet sem helsti áfangastaðurinn miðað við fólksfjölda (ef við höfum ekki náð því nú þegar).

Þingsályktunartillaga þessi er eitt af forgangsmálum Miðflokksins á þessu og þingi og eru allir þingmenn Miðflokksins meðflutningsmenn hennar.

Flutningræðu Ólafs og umræðuna um málið á Alþingi má sjá hér