Stefna Miðflokksins - ferðamál, iðnaður og nýsköpun

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, ræddi í dag um stefnuskrá Miðflokksins undir liðnum Störf þingsins á Alþingi.

Þorsteinn:  "Herra forseti. Nýlokið er á netinu landsfundi Samfylkingarinnar og ég vil nota tækifærið til að óska Samfylkingunni til hamingju með að hafa endurnýjað umboð núverandi forystu. Formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu rétt eftir fundinn að það væri ekkert í stefnuskrá Miðflokksins sem Samfylkingin gæti sætt sig við. Góður félagi minn á vinstri kantinum lýsti því fyrir mér um daginn að ef Samfylkingin væri tónlistarstefna væri hún lyftutónlist. Miðflokkurinn er meira svona þungarokkuð, þjóðleg tónlist, þannig að ekki er svo sem á það að róa að menn geti sætt sig við eitt og annað. En ég tek hvatningu formanns Samfylkingarinnar um að kynna stefnuskrá eða brot úr stefnuskrá Miðflokksins til að þeir sem geta hugsað sér að kjósa Samfylkinguna viti hvað það er sem sá flokkur vill alls ekki kenna sig við.

Hér segir, með leyfi forseta, í kaflanum um ferðamál, iðnað og nýsköpun:

„Aukin samkeppnishæfni Íslands leiðir til meiri verðmætasköpunar og þar með aukinna lífsgæða landsmanna. Iðnaður og ferðaþjónusta skapa saman stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins auk þess að skapa fjölmörg störf og önnur verðmæti. Með nýsköpun, sem á sér stað jafnt hjá frumkvöðlum og í rótgrónum fyrirtækjum, stendur Ísland betur að vígi í samkeppni ríkja og því þarf að hvetja til rannsókna og þróunar hér á landi.“

Og hér segir einnig í kaflanum um félags-, húsnæðis- og jafnréttismál, með leyfi hæstv. forseta:

„Miðflokkurinn vinnur að jöfnum réttindum allra þegna samfélagsins óháð kyni, stöðu eða öðrum þáttum. Við viljum að samfélagið grundvallist á gildum lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda og höfnum hvers konar mismunun.“

Herra forseti. Þetta er í stuttu máli það sem formaður Samfylkingarinnar getur alls ekki sætt sig við og það eru nokkur tíðindi. En auðvitað munum við Miðflokksmenn halda áfram að kynna okkar góðu stefnuskrá og taka þessari hvatningu sem við fáum til að menn komist að hinu sanna."

Upptöku af ræðu Þorsteins má sjá hér.