Útvarpsgjald og staða einkarekinna fjölmiðla

 

Útvarpsgjald og staða einkarekinna fjölmiðla

Bergþór Ólason lagði fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi 8. október um nefskattinn svokallaða.

Virðulegur forseti.  Ég vil gera stöðu fjölmiðla, sérstaklega einkarekinna, að umtalsefni. Í dag liggur fyrir hjá hæstv. fjármálaráðherra að hækka sérstakt gjald sem flestum einstaklingum og fyrirtækjum ber að greiða til Ríkisútvarpsins með millilendingu í ríkissjóði úr 17.900 kr. á ári í 18.300 kr. Þetta er það sem í daglegu tali er kallað nefskatturinn til RÚV. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er reiknað með að útgjöld til Ríkisútvarpsins verði rúmar 4.500 millj. kr. Ofan á það bætast síðan tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum og kostun svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma er lagt til að hartnær 400 milljónir fari til einkarekinna miðla í gegnum umdeilanlegt styrkjakerfi sem m.a. mun kalla fram aukið opinbert eftirlit með fjölmiðlum.  Þó að það sé auðvitað mál sem væntanlega verður ekki klárað í þessari umferð fjárlaga og tengdra mála þá langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hver afstaða hans er til þess að leyfa greiðendum nefskattsins að ráðstafa tilteknu hlutfalli af nefskatti sínum til einkarekinna miðla. Það væri t.d. hægt að gera á skattskýrslu hvers árs og ef við byrjuðum til að mynda á því að gjaldendur fengju að ráðstafa 10% af skattstofni sínum til einkarekinna miðla væru það rétt um 450 milljónir á ári sem fer býsna nærri þeirri tölu sem á með frumvarpi hæstv. menntamálaráðherra að færa til einkarekinna miðla. Þarna væri hægt að hugsa sem svo að t.d. gætu menn valið þrjá miðla og þá gæti einhver valið að styðja Fréttablaðið, einhver Morgunblaðiðeinhver DV, einhver Stundina, einhver Kjarnann, einhver Fótbolta.net o.s.frv.  Mig langar að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sæi þetta sem mögulega og færa leið til að styðja við innlenda einkarekna fjölmiðla með einföldum hætti.

 Umræðuna í heild sinni má sjá hér.

 Umfjöllun um málið á mbl.is má sjá hér.