Velferðarnefnd fær að sjá bóluefnasamninga

Heilbrigðisráðuneytið hefur ákveðið að verða við beiðni velferðarnefndar og veita nefndarmönnum aðgang að samningum um bóluefnakaup. Er það gert með með vísan til laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis. Heilbrigðisráðuneytið hefur hins vegar með vísan til 2. mgr. 51. gr. óskað eftir því að trúnaðar sé gætt um efni gagna og að nefndarmenn kynni sér gögnin á lokuðum fundi.

„Það er ákveðin sigur að fá að sjá gögnin þó við hefðum viljað gera það óbundin. Það er mikilvægt að þingmenn fái að fara yfir þessa samninga og við í Miðflokknum höfum lagt mikla áherslu á það en nú er liðið vel á annan mánuð síðan við lögðum fram formlega beiðni um það,“ segir Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins og nefndarmaður í velferðarnefnd.

Anna Kolbrún segir það ákveðin vonbrigði að ekki skuli vera aflétt frekari trúnaði af þessum gögnum og það hefði verið gagnlegt ef þingmenn hefðu fengið að bera þau undir kunnáttufólk á þessu sviði. „Mér finnst með þessu þrengt að efirlitshlutverki okkar en það er það sem við verðum að búa við að svo stöddu,“ sagði Anna Kolbrún.

Ráðuneytið hefur undirritað átta samninga sem gerðir eru á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur. Annars vegar er um að ræða þríhliða samninga við Svíþjóð og viðkomandi lyfjaframleiðanda um afhendingu bóluefnis, ábyrgð ofl. og svo hins vegar samninga við Svíþjóð um greiðslur vegna kaupa á bóluefni. Þeir samningar sem hér um ræðir innihalda upplýsingar um mikilvæga og virka fjárhagslega- og viðskiptahagsmuni samningsaðila ráðuneytisins.