Yfirfærsla reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn til heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag um yfirfærslu reksturs hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga.

"Ég ætla að halda aðeins áfram að tala um vandræðagang heilbrigðisráðuneytisins við yfirfærslu á rekstri hjúkrunarheimila frá ríki til sveitarfélaga, eins og hv. þm. Logi Einarsson kom inn á hér áðan. Þá voru nefnd í því sambandi sveitarfélögin Vestmannaeyjabæjar, Hornafjörður og Akureyri. Þau hafa lýst yfir óánægju með framlög ríkisins til rekstursins og fylgdu uppsagnir í kjölfarið eins og komið hefur fram.Það er athyglisvert að skoða samskipti þessara sveitarfélaga við Sjúkratryggingar Íslands og ég hef hér undir höndum bréf frá Vestmannaeyjabæ til Sjúkratrygginga Íslands. Þar kemur m.a. fram að bærinn sendi uppsögn á samningi í júní 2020 og voru gerðar ítrekaðar tilraunir til að ná tali af forstjóra stofnunarinnar. Loks rúmum þremur mánuðum eftir uppsögnina náði Vestmannaeyjabær tali af fulltrúum frá sjúkratryggingum. Það kom ekkert fram á þeim fundi hver myndi taka við rekstrinum. Sjö mánuðum síðar er ekki enn ljóst hver tekur við rekstrinum. Hinn 17. febrúar barst bréf frá sjúkratryggingum um að enginn hafi lýst yfir áhuga á að taka við rekstri hjúkrunarheimilis í Vestmannaeyjum. Á Hornafirði á nýr rekstraraðili að taka við núna um mánaðamótin og þar liggur enginn samningur fyrir. Á Akureyri var gefin út sameiginleg fréttatilkynning um að Heilbrigðisstofnun Norðurlands myndi taka við rekstrinum og síðan var bakkað með það allt saman nokkrum mánuðum seinna.Það er alveg ljóst, herra forseti, að þessi mikilvægi málaflokkur er í fullkominni óvissu og það bitnar ekki síst á heimilisfólkinu á þessum hjúkrunarheimilum og aðstandendum þeirra og þessu fólki er einfaldlega sýnd óvirðing. Við verðum bara að viðurkenna það því að þessi málaflokkur er á ábyrgð ríkisins. Svo snýr þetta að starfsfólkinu. Það veit ekki um framtíð sína. Kemur það til með að halda vinnunni, verður skerðing á launum o.s.frv.? Hvað með réttindi þess almennt? Bæjarstjórar Vestmannaeyjabæjar, Hornafjarðar og Akureyrar funduðu með velferðarnefnd um málið í morgun og var verulega þungt hljóð í þeim.Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra hvort ekki séu til neinir verkferlar í ráðuneytinu eða hjá sjúkratryggingum um yfirfærslu hjúkrunarheimila frá sveitarfélagi til ríkisins. Þetta er þjónusta sem er á ábyrgð ríkisins."

 

Upptöku af fyrirspurn Birgis úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér