Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til umsagnar „ný og uppfærð aðgerðaráætlun í loftslagsmálum“ í boði Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra Sjálfstæðisflokksins.
Fyrst gerði ráðherrann atlögu að því að hafa samráðstímabilið mjög stutt, þannig að það kláraðist um hásumar – að líkindum til að lágmarka vandræðagang af mögulegum umsögnum. Eftir töluverða gagnrýni var umsagnarfresturinn framlengdur og rennur nú út 22.september, eftir rúmar þrjár vikur.
Það er full ástæða til að hvetja fólk og fyrirtæki til að kynna sér það sem að þeim snýr í þessu langa plaggi ríkisstjórnarinnar, sem telur 260 blaðsíður. Fyrir þá sem ekki nenna, eða hafa einfaldlega ekki tíma, þá tók þingflokkur Miðflokksins á sig ómakið og fjallar ítarlega um þessar tillögur ráðherra Sjálfstæðisflokksins í hlaðvarpinu Sjónvarpslausir fimmtudagar sem má nálgast á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Umfjöllunin er í 92. þætti hlaðvarpsins. Við getum því miður ekki lofað að þetta sé okkar skemmtilegasti þáttur en það þurfti bara að gera þetta svo fleiri gætu áttað sig á því hvað núverandi ríkisstjórn, með Sjálfstæðisflokkinn í broddi fylkingar, hyggst leggja á herðar íslensku þjóðarinnar í þessum efnum.
Í plagginu eru í stuttu máli kynntar til leiks auknar álögur, þvingandi ákvarðanir gagnvart heimilum og fyrirtækjum, þjónkun við regluverk sem er sniðið er að hagsmunum þjóða sem búa við allt annan veruleika en við hér á Íslandi og svo mætti áfram telja. Meira og minna er þetta okkur mjög mótdrægt.
Íslensk stjórnvöld ættu frekar að nýta tímann og segja sig frá þessu samfloti í loftslagsmálum í ljósi stöðunnar og nálgast þessi mál á réttum forsendum. Forsendum þjóðar sem er í fararbroddi allra þjóða heims þegar kemur að árangri í loftslagsmálum – með 85% af orkunotkun sinni frá endurnýjanlegum grænum orkugjöfum. Til samanburðar er hlutfallið um 20% hjá Evrópusambandsríkjunum.
Til að kasta ryki upp í loftið í þeirri von að þjóðin blindist og taki ekki eftir firringu umhverfisráðherrans reynir hann í öðru hverju orði að varpa ábyrgðinni á formann Miðflokksins því hann skrifaði undir eitt áformaskjal í París fyrir tíu árum síðan. Það féll ekki í skaut Sigmundar Davíðs að útfæra áformin og aðlaga að íslenskum aðstæðum – nei Sjálfstæðisflokkurinn tók þann bolta í nýrri ríkisstjórn og hefur keyrt okkur kirfilega út í skurð í þessum málum.
Við hvetjum þá sem geta að hlusta á umfjöllun um aðgerðirnar 150 í Sjónvarpslausum fimmtudögum og láta svo í sér heyra og senda inn umsögn um málið á samráðsgátt.
En það er ljós við enda ganganna. Það er enn hægt að vinda ofan af vitleysunni en til þess þarf skynsemi og raunsæi – og getuna til að standa í lappirnar gagnvart erlendum öflum.
Þar munar um Miðflokkinn.
Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is