70 milljarðar af froðu í Reykjavík

70 þúsund milljónir af froðu hafa nú flotið upp í bókhaldi Reykjavíkurborgar. Froðan felst í endurmati fasteigna Félagsbústaða, sem framkvæmt er á markaðsverði í stað þess að gera það á kostnaðarverði eins og reikningsskilareglur gera ráð fyrir þar sem ekki er um fjárfestingareignir að ræða, enda húsnæðið notað sem félagslegt úrræði.

Af gögnum málsins og því regluverki sem reikningsskil opinberra aðila eru undirorpin, blasir við að Reykjavíkurborg hefur ofmetið eignir sínar um 70 milljarða, önnur niðurstaða virðist útilokuð. Var þetta gert til að fegra skuldastöðu borgarinnar? Sennilega. Hver ber ábyrgð? Borgarstjóri. Verða viðurlög? Sennilega ekki önnur en þau að borgarbúar blæða.

Það er auðvitað alvarlegt mál að ráðuneyti sveitarstjórnarmála skuli hafa heykst á að taka á málinu, jafn borðleggjandi og það er. En í ljósi þess hvernig Framsóknarflokkurinn gekk nýlega um ríkissjóð sem sinn eigin kosningasjóð, þá kann ekki að koma á óvart að formanni flokksins þyki nokkuð á borgarsjóð, og þar með borgarbúa, leggjandi til að rugga ekki bátnum á vinstri síðu.

Margir gagnrýndu froðukennd reikningsskil fyrirtækja í aðdraganda bankahrunsins, eðlilega, en fótfesta meirihluta borgarstjórnar verður ekki meiri með þessa froðu undir fótum sér en raunin varð um þá sem hraðast höfðu gengið um gleðinnar dyr fyrir hálfum öðrum áratug síðan.

Á sama tíma og þetta atriði kemur upp, enn einu sinni, án þess að gripið sé til viðeigandi leiðréttingar á reikningsskilum Reykjavíkurborgar kaupir borgin iðnaðarhúsnæði fyrir 460 milljónir, til að „rýmka fyrir stoppistöð“ Borgarlínu. 115 til 130 milljónum yfir mati tveggja fasteignasala. Peningar eru ekki vandamál þegar gæluverkefnin eiga í hlut.

Og enn á borgarstjóri eftir að standa skil á þeim viðbótarkostnaði sem verður við lagningu Sundabrautar eftir að meirihluti borgarstjórnar tók ákvörðun um að selja land undan heppilegustu veglínu brautarinnar, augljóslega með það að markmiði að hindra lagningu hennar. Sá verðmiði stóð í 10.000 milljónum fyrir nokkrum árum síðan og fer örugglega ekki lækkandi. 10 milljörðum! Á sama tíma ræður borgin ekki við að moka snjó!

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar, 2022.