Að eyða biðlistum á Vog er öllum til hagsbóta

Undirritaður hyggst leggja fram tillögu til þingsályktunar þar sem heilbrigðisráðherra er falið að leita leiða til að eyða biðlistum á sjúkrahúsið Vog.

Í greinargerð með tillögunni er ráðherra falið að skila úttekt á því hve mikið fjárframlag SÁÁ þyrfti ár hvert til þess að sjúkrahúsið Vogur geti stytt biðlista. Heilbrigðisráðherra skal skila niðurstöðum sínum fyrir 1. september 2020.

SÁÁ rekur sjúkrahúsið Vog, ásamt því að reka meðferðarstöðina Vík og göngudeild. SÁÁ fær ár hvert ríkisframlag til reksturs sjúkrahússins Vogs. Samkvæmt útgefnu efni frá árinu 2017 var heildarkostnaður við rekstur sjúkrahússins rúmar 925 milljónir, ríkisframlagið sem SÁÁ fékk það ár voru rúmar 694 milljónir. Kostnaður á legudag var því 40.818 kr. miðað við 22.670 legudaga á ári.

Að meðaltali eru 500 manns á biðlista eftir innlögn á Vog. Hefur svo verið frá miðju ári 2014 og fjöldinn farið upp í 700 manns. Biðtími er stuttur fyrir þá sem leita sér meðferðar í fyrsta sinn og enginn fyrir unglinga. Þeir sem bíða eftir innlögn eru þeir sjúklingar sem hafa verið í meðferð áður. Það hefur sýnt sig að sumir sjúklingar þurfa fleiri en eina meðferð til að ná árangri. Margir þeirra hafa náð góðum árangri og átt innihaldsríkt og heilbrigt líf. Það er stundum sagt að hver einstaklingur finni sinn botn á misdjúpu vatni, þar af leiðandi er nauðsynlegt að þeir sem sækja um meðferð oftar en einu sinni fái nauðsynlega þjónustu.

Árið 1997 var brugðist við vaxandi biðlista með því að gerð var áætlun hvernig eyða mætti honum m.a. með því að byggja við sjúkrahúsið Vog. Áætluninni lauk árið 2000 og það tókst að stytta biðlistana og þurrkuðust þeir út um tíma. Skortur á rekstrarfé og fækkun starfsfólks, varð til þess að biðlistar lengdust aftur.

Það er ljóst að ómeðhöndlaðir fíklar hafa mikil áhrif á samfélagið. Það er samfélagslegur ávinningur allra að fíklar sem vilja komast í meðferð hafi tækifæri til að komast að þegar þeir eru tilbúnir til þess. Leiða má líkur að því að rekja megi hluta afbrota, eignaspjalla og slysa til einstaklinga sem eru undir áhrifum vímuefna, þar með talið áfengis. Með þessum þremur breytum verða fleiri útköll hjá löggæslunni sem og refsingar. Sá heilsubrestur, bæði andlegur og líkamlegur, sem fylgir ofneyslu áfengis og fíkniefna er gríðarlegur baggi fyrir samfélagið. Aukið fé til að eyða biðlistum mun skila sér í bættri heilsu, kostnaðurinn skilar sér því til baka. Það hefur margoft sýnt sig að sé fíklum eða áfengissjúklingum hjálpað verða þeir nýtir þjóðfélagsþegnar en ekki einstaklingar sem stundum eru byrði á þjóðfélaginu.

Kostnaður þjóðfélagsins við að hafa sjúkt fólk annaðhvort á stofnunum eða á vergangi er mikill. Þeir sem sækjast eftir heilsu eiga að fá aðstoð. Sjúkrahúsið Vogur hefur sérhæft sig í afeitrun fíkla og meðferðum undanfarna áratugi, reynsla starfsfólks þess er mikil, og vekur athygli út fyrir landsteinana. Aðgengi fólks að meðferðarstofnun á að vera sjálfsagt og eðlilegur hluti af heilbrigðiskerfinu. Það er mat undirritaðs að árangur af biðlistalausu aðgengi inn á sjúkrahúsið Vog mun auðvelda þann vanda sem blasir við í heimi fíkniefna hvers konar.

 
Höfundur:  Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins
Greinin birtist í Fréttablaðinu þann 4. febrúar, 2020