Að uppfæra sáttmála sem þarf að endurskoða

Hinn 9. mars sendu innviðaráðherra og SSH minnisblað til stýrihóps samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins með „verkáætlun um uppfærslu forsenda og undirbúning viðauka“. Uppfærslunni skal ljúka í lok júní, þegar þing er ekki lengur að störfum, jafn galið og það nú er.

Í minnisblaðinu er farið yfir áskoranir og tækifæri í tengslum við samgöngusáttmálann, hækkanir kostnaðaráætlana, seinkun á tímaáætlun, ýmis vandkvæði varðandi afmörkun og skilgreiningu framkvæmda og svo kemur rúsínan í pylsuendanum; rekstur borgarlínu.

Í fyrirspurnartíma á Alþingi sl. mánudag sagði innviðaráðherra í svari við fyrirspurn minni að sér hefðu þótt ýmis atriði, sem hann hafði metið nokkuð skýrt innrömmuð í samgöngusáttmálanum, þróast í þá átt að aðilar væru að rífast um þau. Þetta er einfeldningsleg nálgun hjá ráðherranum, enda var stór hluti þeirrar aðgerðar sem Miðflokkurinn sá sig tilneyddan til að ganga til, og sumir kölluðu málþóf, einmitt ætlaður til að verja hagsmuni ríkissjóðs, en skilja ekki eftir opinn krana skattpeninga inn í það sem síðar varð Betri samgöngur ohf.

Í minnisblaðinu frá 9. mars segir: „Ekki hefur náðst endanlegt samkomulag milli aðila samkomulagsins um það hvað það sé nákvæmlega sem sáttmálinn greiði í hverri framkvæmd og hvað ekki (mörkun).“ Og áfram segir í minnisblaðinu: „Í drögunum er nú gert ráð fyrir að sáttmálinn greiði helming kostnaðar sveitarfélaganna vegna nauðsynlegra skipulagsbreytinga. Hefur sá kostnaður ekki verið verðmetinn.“

Ég nefni þessar tvær setningar bara sem dæmi, af nógu er að taka. Svör við þessum vangaveltum liggja nú þegar fyrir í gögnum Alþingis. Bara ef ráðherrann læsi það sem þaðan kemur.

Og að lokum sem dæmi: „Viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga klári drög að samningi um eflingu almenningssamgangna. Rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði tryggður með aðkomu sveitarfélaga og ríkisins.“

Um þetta atriði lá alveg fyrir, og var í raun forsenda afgreiðslu Alþingis, að ríkissjóður kæmi ekki að rekstri borgarlínu. Þetta hefur formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis margítrekað. Þetta kom fram í umræðu á þingi og í þingskjölum og meira að segja sagði innviðaráðherra í viðtali að „engin áform“ væru uppi um að ríkið yki rekstrarframlög til almenningssamgangna með tilkomu borgarlínu. Hvað hefur breyst?

Enn einu sinni láta stjórnvöld plata sig til að borga kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. Kosningaloforð Dags B. Eggertssonar, sem senn hverfur úr stóli borgarstjóra er hann víkur fyrir oddvita Framsóknarflokksins í borginni. Kannski er það skýringin á undanlátssemi innviðaráðherra?

Það sem blasir við er að það þarf ekki bara að uppfæra samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, það þarf að endurskoða hann.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 31. mars, 2023.