Aðförin að flugvellinum heldur áfram

Aðförin að flugvellinum heldur áfram

Borgarstjóri hefur nú ritað bréf til samgönguráðherra þar sem þess er krafist að fundinn verði nýr staður fyrir kennslu- og einkaflug og það „án tafar“ og vísar máli sínu til stuðnings í samkomulag frá árinu 2013 sem innanríkisráðherra og borgarstjóri rituðu undir. Þessi krafa borgarstjóra undirstrikar andúð á menntastofnuninni Reykjavíkurflugvöllur og þjónkun við þá örfáu borgarbúa sem amast við kennslu og einkaflugi.

Enginn flugvöllur getur tekið við kennslufluginu því Reykjavíkurflugvöllur er eini flugvöllurinn á SV-horninu með þjónustaðar flugbrautir og með flugumferðarstjórn í loftrými utan Keflavíkurflugvallar. Ómögulegt er að útskrifa flugnema með réttindi án þess að þeir fái ítarlega þjálfun í flugi um stjórnað loftrými og umferð á stjórnuðum flugvelli. Þá er nauðsynlegt fyrir nám til atvinnuflugs að þjálfa flugmenn í aðflugi að stjórnuðum flugvöllum og með blindflugsbúnað.

Öllum má vera ljóst að flugumferð um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og kennslu- og einkaflug fer á engan hátt saman. Með því að rita þetta bréf og krefjast þess að kennslu- og einkaflug hverfi úr Vatnsmýrinni „án tafar“ upplýsir borgarstjóri um mikla vankunnáttu sína í málafokknum. Bygging og rekstur nýs flugvallar með þeim búnaði og þjónustu sem alþjóðlegar reglugerðir krefjast til flugnáms yrði gríðarlega kostnaðarsöm aðgerð, sem eingöngu virðist vera til að bola Fluggörðum á brott.

Á flugvallarsvæðinu eru um 8.000 fermetra atvinnuhúsnæði sem er stjórnarskrárvarin eign. Samkvæmt lögum skulu fullar bætur koma fyrir séu rekstaraðilar hraktir á brott. Þá er ekki einungis hægt að horfa til flugskýlanna eingöngu heldur líka aðgengi að flugbrautum og annarrar þjónustu sem þessir rekstraraðilar hafa. Rétt er að minnast á það hér að meirihlutinn í Reykjavík virðist vera hættur við að leggja veg í gegnum flugskýli Flugfélasins Ernis. Sú barátta skilaði sér að lokum og hætt var að skerða flugvallarsvæðið um tæpan hálfan hektara. Að lokum stríðir þessi krafa borgarstjóra gegn því meginsamkomulagi að Reykjavíkurflugvöllur skuli starfræktur án skerðingar þar til annar jafn góður eða betri kostur liggur fyrir.

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Grafarvogsblaðinu, Árbæjarbæjarblaðinu og Grafarholtsblaðinu þann 19. ágúst, 2020