Aðgerðaráæltun um einföldun regluverks

 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um tímasetta aðgerðaráætlun um einföldun regluverks, sem er eitt af forgangsmálum þingflokks Miðflokksins í haust.

"Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að hafa forgöngu um að ríkisstjórnin geri tímasetta aðgerðaáætlun um einföldun regluverks. Við vinnuna verði miðað við að uppfylla að minnsta kosti markmið stöðuskýrslu ráðgjafarnefndar um opinberar eftirlitsreglur um einföldun gildandi regluverks frá september 2014 og sértækar jafnt sem almennar aðgerðir útlistaðar og tímasettar. Forsætisráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina á vorþingi 2021."

Ennfremur stendur í greinagerð þingsályktunarinnar:

"Umræðan um óþarflega flókið og íþyngjandi regluverk og þörfina á einföldun þess er ekki ný af nálinni heldur hefur vandinn lengi legið ljós fyrir. Sem dæmi má nefna að 30. mars 1999 tóku gildi lög um opinberar eftirlitsreglur, nr. 27/1999, en í upphafsorðum greinargerðar frumvarpsins sem varð að þeim lögum sagði: „Undanfarin ár hefur komið í ljós að ofvöxtur er víða hlaupinn í reglugerðir og eftirlitsumfang opinberra aðila í iðnvæddum ríkjum. Regluverk eru sums staðar orðin svo flókin og viðamikil að fyrirtæki og einstaklingar eiga erfitt með að fylgjast með réttarstöðu sinni. Jafnframt hafa strangar hömlur af ýmsu tagi leitt til hægari nýsköpunar og atvinnustarfsemi og þannig haft neikvæð áhrif á hagvöxt og lífskjör.“
    Þrátt fyrir markmið laganna um að sporna við þeirri þróun sem þarna er lýst verður ekki um það villst að reglubyrði atvinnulífsins og flækjustig regluverksins í heild hefur margfaldast frá setningu þeirra fyrir tveimur áratugum. Talsverður hluti þeirrar auknu reglubyrði er kominn til vegna aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og skyldubundinnar innleiðingar reglna vegna þátttöku landsins í innri markaði Evrópusambandsins. Því verður hins vegar ekki einu um kennt og má nefna að hagsmunaaðilar á vinnumarkaði hafa á undanförnum árum verið iðnir við að benda á að stjórnvöld innleiði EES-gerðir með meira íþyngjandi hætti fyrir almenning og atvinnulíf í landinu en nauðsynlegt er. Stjórnvöld nýti ekki það svigrúm sem bjóðist til að létta reglubyrði heldur hneigist þvert á móti til að bæta við séríslenskum reglum sem íþyngi atvinnulífinu og veiki samkeppnisstöðu þess á alþjóðamarkaði."

Flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og meðflutningsmenn eru Anna Kolbrún Árnadóttir, Ásmundur Friðriksson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Hanna Katrín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Sigmundar Davíðs má sjá hér á upptöku af vef Alþingis

Þingsályktunartillöguna má lesa hér

 Málið gekk til efnahags- og viðskiptanefndar þann 15. 10. 2020