Ættliðaskipti bújarða - þingsályktunartillaga

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, mælti fyrir þingsályktunartillögu sinni um ættliðaskipti bújarða á Alþingi í dag.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra verði gert að undirbúa og leggja fram frumvarp þess efnis að jarðeigendum verði heimilt með einföldum hætti að ráðstafa jörð sinni milli ættliða. Markmið tillögunnar er að treysta búrekstur í landinu og að gera ábúendum jarða auðveldara að ráðstafa jörð innan ættar.  Tillöguna má lesa í heild sinni hér.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um ættaróðal og erfðaábúð frá árinu 1943 segir að markmið laganna sé að draga úr þeirri skuldabyrði sem fylgir því að ungir bændur kaupi jarðir af foreldrum sínum eða meðerfingjum. Sú skuldabyrði olli því að kaupendur gátu oft litlu áorkað til umbóta á jörðum sínum. Eftir brottfall ákvæða um heimild til stofnunar nýrra ættaróðala úr jarðarlögum er staðan alls ekki ólík. Því er tilefni til þess að farið verði í heildræna endurskoðun á því hvernig haga megi ættliðaskiptum á bújörðum til framtíðar þannig að nýliðun verði sem allra mest og að ungir bændur geti tekið við búum af eldri kynslóðum án þess að þurfa að taka á sig óviðráðanlega skuldabyrði.

Flutningsmaður:  Birgir Þórarinsson

Meðflutningsmenn:  Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.

Flutningsræðu Birgis í þingsal má sjá hér