Afglöp heilbrigðisráðherra!

Ætla má að 25 – 30 þúsund konur nýti sér boð í skimun fyrir leghálskrabbameini á hverju ári. Margar þeirra eru í reglulegu eftirliti, tilheyra áhættuhópum eða jafnvel með einkenni. Þjónusta við alla þessa hópa hefur  verið meira og minna í lamasessi  í 9 mánuði. Ástæðan er sú að ákveðið var að ana áfram án fyrirhyggju, í breytingar sem heilbrigðisráðherra ákvað að gera á þjónustunni og færa hana til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Þetta var gert undir formerkjum þess að þjónustunni væri betur borgið í forsjá stjórnvalda en hjá frjálsum félagasamtökum eins og Krabbameinsfélagi Íslands, sem starfaði samkvæmt þjónustusamningi.

Í febrúar stofnaði ég hóp á fésbókinni undir titlinum „Aðför að heilsu kvenna“. Síðan þá hefur almenningur ítrekað vakið athygli á ástandinu. Óreiðan og glundroðinn sem hefur skapast  síðan þessar breytingar komu til framkvæmda hafa hingað til engan enda ætlað að taka. Fjöldi kvenna hefur mátt bíða eftir niðurstöðum mánuðum saman. Þær segja einnig frá því að þær eigi  í vandkvæðum með að fá frekari rannsóknir þegar þess er þörf. Að búa við slíkt er óásættanlegt og  rýrir þeirra lífsgæði verulega bið eftir niðurstöðu getur haft mikil sálræn áhrif. Við óvissu vill enginn búa. Mikill árangur í að lækka tíðni leghálskrabbameins meðal íslenskra kvenna er kominn til vegna þess að greining á forstigseinkennum sjúkdómsins næst í tæka tíð svo að beita má meðferð til að koma í veg fyrir hann. Þegar best lét, áður en fyrr nefndar breytingar urðu, var biðtími eftir niðurstöðum 2 – 3 vikur.

Núverandi ófremdarástand ógnar heilsu kvenna á Íslandi. Yfirlýsingar heilbrigðisráðherra í byrjun júlí um að breytingar verði gerðar um komandi áramót breyttu engu þar um. Koma þarf á raunverulegum úrbótum á miðlun upplýsinga um niðurstöður og að það sé gert með þeim hætti að ekki valdi enn meiri óvissu og kvíða meðal skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Þetta þarf að gera án tafar eins og búið er að krefjast  mánuðum saman. Það er fagnaðarefni að nú hefur fyrrverandi yfirlæknir hjá Krabbameinsfélagi Íslands verið ráðinn til að stýra þessu verkefni.  Hann þekkir þetta verkefni út og inn.

Ljóst er að farið var af stað í þessa vegferð án nauðsynlegs undirbúnings á þeim gagnagrunnum sem taka við og vinna úr niðurstöðum greininga. Slíkt er vítavert gáleysi og hefur orsakað þá óreiðu sem fyrr er lýst. Það sem nú þarf að gera er að viðurkenna þetta í eitt skipti fyrir öll og koma fram með trúverðuga áætlun um hvernig þessi þjónusta verður veitt. Það er fjarri sanni að umræðan „...um leghálskrabbamein hafa snúist um hræðsluáróður“ eins og framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lét hafa eftir sér í viðtali þann 20. ágúst sl. viku. Tala þarf til skjólstæðinga þjónustunnar af virðingu og endurvinna með því traust á henni.

 

Erna Bjarnadóttir skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist í Víkurfréttum þann 26. ágúst, 2021