Áhrifastaða

Það væri samfélaginu öllu heillaspor ef hugarfarsbreyting yrði á orðinu áhrifastaða.  Virðing og væntumþykja er besti förunautur áhrifavalds.  Lengi hefur heyrst að fjölga þurfi konum í áhrifastöðum, en það má einnig spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að fullyrða að fjölga þurfi körlum í áhrifastöðum?  Báðar þessar fullyrðingar eru réttar, það sem helst er athugavert við fullyrðingarnar er hugtakið áhrifastaða.  Samfélagið með hjálp fjölmiðla skilgreinir oftar en ekki áhrifastöður sem stöður er snúa að efnahags- og viðskiptalífinu.

Áhrifastöður er víða að finna í samfélaginu og í aðalnámsskrá leikskóla er því beinlínis haldið fram að litið sé á leikskólakennara sem áhrifavald í uppeldis- og menntastarfi barna.  Með því er verið að segja að það sé áhrifastaða að vera leikskólakennari.  Við höfum allar beint og óbeint notið leiðsagnar starfsfólks leikskóla, bæði leikskólakennara og ófaglærðs starfsfólks. Ekki þarf að efast um að þetta sé rétt, starfsfólki leikskóla er ætlað að vera þátttakendur og leiðandi í mótun starfsins, vera góð fyrirmynd, samverkamaður barna, foreldra og samstarfsfólks.

Að sama skapi má fullyrða að umönnunarstörf séu skipuð fólki í áhrifastöðum.  Við allar og hver einasta fjölskylda í landinu hefur örugglega átt í samskiptum við einstaklinga sem sinna ástvinum að alúð og oftar en ekki á erfiðum tímum.  Samskipti við umönnunaraðila eru og verða áhrifarík og þar með skipuð fólki í áhrifastöðum.

Rannsóknir sýna að kynskiptur vinnumarkaður er hindrun sem erfitt er að yfirstíga og skerðir atvinnumöguleika beggja kynja.  Þegar talað er um umönnunar- og kennslustörf, þá er oftar en ekki talað um hefðbundin kvennastörf og jafnvel kvennastéttir sem sinna störfunum.  Karlar eiga ekki séns og þeir karlar sem hætta sér inn á óhefðbundinn starfsvettvang hafa margir hverjir lýst fordómum sem þeir urðu fyrir vegna starfsvalsins.  Vissulega vekur þetta einnig umhugsun um hvort (fleiri) drengir í framhaldsskóla hafi hug á því að sækja inn á svið umönnunar- eða kennslu þegar í sífellu er talað um kvennastörf.  Eða hvort (fleiri) stúlkur hafi vilja til þess að sækja starf í verkgreinum þegar að talað er um hefðbundin karlastörf.

Á nýliðnu Jafnréttisþingi kynnti forsætisráðherra skýrslu um jafnréttismál fyrir árin 2019 – 2020 þar sem hún fjallaði meðal annars um kynskiptan vinnumarkað og sagði hefðbundna verkskiptingu vera enn við lýði.  Við hvetjum forsætisráðherra til að grípa til raunverulegra aðgerða þar sem við vitum að umræðan um kynskiptan vinnumarkað hefur verið leiðarstefið undanfarin mörg ár og hver skýrslan á fætur annarri hefur einmitt vakið athygli á því, ásamt ýmsum starfshópum.  Einn slíkur benti á árið 2015 á leiðir til þess að brjóta upp þennan veruleika, hækka þarf laun hinna hefðbundinna kvennastétta.  En meira þarf til, það er þannig að á liðnum árum hefur verið ráðist í ýmis átaksverkefni til að jafna kynjahlutföll í hinum ýmsu starfsgreinum. Átaksverkefni ein og sér duga ekki til, heldur þarf stefnumótun, framtíðarsýn og markvissar aðgerðir sem byggja á langtímaáætlunum til að brjóta upp kynskiptan vinnumarkað.

Við viljum að lokum þakka fyrir okkur og þökkum sérstaklega öllum konum sem í dag starfa sannarlega í áhrifastöðum.

Í dag fögnum við alþjóðadegi kvenna, til hamingju með daginn, öll sem eitt!

 

Höfundar greinarinnar eru:

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins

Una María Óskarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins

Maríanna Eva Ragnarsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins

Valgerður Sveinsdóttir, varaþingmaður Miðflokksins

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík

Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjanesbæ