"Allt veltur á að rétt sé á málum haldið"

Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram þann 1. október.  Ólafur Ísleifsson tók til máls í þriðju umferð.

 

Herra forseti. Góðir Íslendingar.

Margt var vel sagt í stefnuræðu forsætisráðherra eins og vænta mátti. Þó verður ekki beinlínis sagt að hæstv. ráðherra hafi dregið arnsúg í fluginu þegar hún fjallaði um málefni aldraðra enda hefur ríkisstjórn hennar reynst nánast ófáanleg til að draga úr skerðingum á greiðslum úr almannatryggingum. Miðflokkurinn leggur áherslu á að fast verði tekið á skerðingum vegna atvinnutekna. Fólki á að leyfast að bæta hag sinn með aukinni vinnu án slíkra skerðinga. Skerðingar vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum fela í raun í sér upptöku á lífeyrissparnaði og grafa undan tiltrú á lífeyriskerfinu. Aldrað láglaunafólk er skilið eftir jafnsett og fólk sem ekkert hefur greitt í lífeyrissjóð á starfsaldri. Greiðslur í lífeyrissjóð birtast fólkinu eins og hver annar skattur en ekki framlag til að bæta kjör sín eftir að starfsaldri lýkur. Þessu vill Miðflokkurinn breyta og undirbýr þingmál til að svo megi verða.

Kynslóðinni sem er að komast á eða er komin á eftirlaun var á sínum tíma gefið það fyrirheit að greiðslur í lífeyrissjóði myndu bæta hag þess á efri árum. Herra froseti. Við þetta fyrirheit verður að standa.

Miðflokkurinn vill að öldruðum sé gert kleift að búa á heimilum sínum sem lengst. Til þess þarf að efla heimaþjónustu við aldraða. Miðflokkurinn telur einnig brýnt að þegar aldraðir geta ekki lengur búið heima án stuðnings sé greiður aðgangur að hjúkrunarrými og þess vegna þarf að gangast fyrir átaki til að reisa fleiri hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Herra forseti. Málefni hælisleitenda hafa farið hátt í opinberri umræðu á síðustu vikum og mánuðum. Mikilvægt er að ræða þau mál af yfirvegun og marka farsæla stefnu í málaflokknum. Sýnt er að stjórnsýslan ræður ekki við verkefnið á vakt Sjálfstæðisflokksins og er langur afgreiðslutími í fjölda mála skýrasti vitnisburðurinn í því efni. Kostnaður ríkissjóðs hefur á umliðnum árum aukist eftir lögmáli veldisvaxtar. Þá kúrfu verður að fletja út til að sýna viðunandi ábyrgð í ríkisrekstri. Miðflokkurinn sættir sig ekki við óbreytt ástand í þessum efnum og vill nýta reynslu nágrannalanda sem gripið hafa til ýmissa aðgerða til að bæta úr skák.

Herra forseti. Við viljum ekki að böl atvinnuleysis leggist yfir landsmenn. Við viljum ráðast í átak til að bæta vegakerfið, flugvelli, hafnir, brýr og fleiri slík vinnuaflsfrek verkefni. Hér eru uppi háar fjárhæðir til arðsamra verkefna. Til að fjármagna framkvæmdir af þessu tagi má sjá fyrir sér að ríkið stofni félag sem nýtir þekkingu og hugvit til að lyfta landinu í þessu tilliti. Slíkt félag gæti leitað til almennings og boðið lífeyrissjóðum áhugaverða fjárfestingarkosti sem féllu vel að eignasöfnun þeirra. Með þessu væri einnig komið til móts við nauðsyn sjóðanna á að ávaxta ráðstöfunarfé til langs tíma til hagsbóta fyrir sjóðfélaga á efri árum.

Herra forseti. Framtíðin er björt í landinu fagra. Við þurfum að rækja skyldur okkar við ungar og upprennandi kynslóðir sem standa í senn frammi fyrir miklum áskorunum og um leið miklum tækifærum. Allt veltur á að rétt sé á málum haldið.

Góðar stundir.

 

Hér má sjá upptöku af ræðu Ólafs á vef Alþingis