Ályktanir flokksráðsfundar Miðflokksins 9. nóvember 2019

Ályktanir flokksráðsfundar Miðflokksins 9. nóvember 2019

Flokkráðsfundur Miðflokksins haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 þakkar þingmönnum flokksins og sveitarstjórnamönnum öflugt og málefnalegt starf við að bæta búsettu- og lífsskilyrði um land allt og gæta hagsmuna þjóðarinnar á erlendum vettvangi.

 

Ályktun 1 – Opinber stjórnsýsla og einföldun regluverks

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur góðan grundvöll fyrir því að draga úr skattheimtu bæði af einstaklingum og fyrirtækjum og vill beita sér fyrir einföldun skattheimtu svo og greiðslu útsvars og fasteignagjalda.

Skattar á Íslandi eru með þeim hæstu í heimi þegar lífeyrisgreiðslur eru teknar með í reikninginn. Það er löngu orðið tímabært að draga úr álögum á almenning og fyrirtæki og leysa þannig úr læðingi aukna verðmætasköpun. Það gagnast samfélaginu öllu að leyfa fólki og fyrirtækjum í auknum mæli að ráðstafa eigin tekjum. Á sama tíma þurfa ríki og sveitarfélög að fara betur með það almannafé sem þau taka til sín og nýta betur það mikla fjármagn sem er til ráðstöfunar.

Ár eftir ár vex umgjörð stjórnkerfisins á Íslandi og kostnaðurinn sem því fylgir. Sá kostnaður er greiddur af skattgreiðendum. Miðflokkurinn ætlar að draga úr íþyngjandi regluverki og minnka báknið. Þannig verði íbúum og fyrirtækjum landsins gert auðveldara og ódýrara að lifa lífi sínu og skapa ný verðmæti.

Miðflokkurinn leggur áherslu á ráðdeild og skilvirkni við meðferð almannafjár.

Miðflokkurinn styður sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi hagkvæmni í sameiningu þeirra með tilliti til íbúafjölda og landfræðilegra skilyrða.

Við ætlum að lækka skatta, leggja áherslu á ráðdeild og skilvirkni ríkisrekstrar, draga úr umfangi íþyngjandi regluverks og virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi sameiningar.

 

Ályktun 2 – Málefni eldri borgara og lífeyrisþega

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019, skorar á stjórnvöld að leiðrétta þegar í stað kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur. Jafnframt verði komið á sveigjanlegum starfslokum án skerðingar ellilífeyristekna og að lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Einnig verði komið á hvötum svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist

Eldir borgarar og aðrir sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur bíða enn eftir réttlætinu sem þeim var lofað fyrir áratug um að skerða ekki lífeyrisgreiðslur sem flestir flokkar lofuðu einnig fyrir seinustu alþingiskosningar. Skerðingar og aðrir neikvæðir hvatar hafa mikil og óæskileg áhrif á sjálfsbjargarhvöt fólks til að bæta hag sinn. Óeðlilegar skerðingar hafa einnig neikvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir sanngjarnara og skynsamlegra lífeyriskerfi fyrir alla!

Við ætlum m.a. að efna loforð stjórnvalda um að leiðrétta kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar sem draga úr hvata til sjálfsbjargar og koma á sveigjanlegum starfslokum. 

 

Ályktun 3 – Heilbrigðismál

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 skorar á stjórnvöld að bregðast þegar við þeim vanda sem skapast hefur á Landspítalanum ásamt því að gera úttekt á stjórnun spítalans. Þá verði ráðist í frekari uppbyggingu sjúkrahúsa og heilsugæslna á landsbyggðinni og lögð drög að byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum stað.

Heilbrigðiskerfið á Íslandi verður ekki bætt með því að bæta stöðugt í það auknu fjármagni án þess að laga kerfið sjálft. Álag á heilbrigðiskerfið mun aukast jafnt og þétt næstu ár og áratugi með hækkandi lífaldri þjóðarinnar. Ef við ætlum að tryggja framúrskarandi heilbrigðisþjónustu fyrir alla þá þarf heilbrigðiskerfið að verða mun skilvirkara. Lýsandi dæmi um vanda kerfisins birtist í því að sjúklingar séu sendir til útlanda í aðgerðir sem kosta þrefalt meira en þær myndu kosta á Íslandi. Annað dæmi um þennan vanda eru gríðarlega dýrar og óskynsamlegar framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru við endurbætur gamla Landspítalans í stað þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús fyrir 21. öldina á nýjum stað.

Við ætlum að bregðast við bráðavanda Landspítala m.a. með endurskoðun á stjórnun, mönnun og innkaupum, byggja upp heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og reisa nýjan landspítala á nýjum stað.

 

Ályktun 4 – Staða iðn- og verkmenntunar

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur afar brýnt að efla iðn- og verknám með breyttum áherslum í menntakerfinu.

Skortur er á starfsfólki með iðnmenntun og einnig með raungreina- og tæknimenntun og er svo komið að mörg fyrirtæki þurfa að sækja vinnuafl erlendis. Spjótin beinast að menntakerfinu og þeim áherslum sem þar hafa verið lagðar. Við þessu þarf að bregðast.

Samtök iðnaðarins gáfu nýlega út atvinnustefnu fyrir Ísland, sem ber yfirskriftina „Mótum framtíðina saman“. Í skýrslunni kemur fram hve bág staða iðn- og verkmenntunar er hér á landi. Samtökin kalla á viðamiklar úrbætur og samstarf atvinnulífs, skóla og yfirvalda um endurbætur á menntakerfinu, fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði og hækkun hlutfalls þeirra sem velja sér starfsnám. Miðflokkurinn styður slíka stefnumótun og að nægu fjármagni verði varið til eflingar starfsmenntunar við verkmenntaskóla landsins í samstarfi við fyrirtæki í viðkomandi landshlutum. Þá vill flokkurinn að iðnnám njóti sömu viðurkenningar og bóknám m.a. að sveinspróf verði metið jafnt á við stúdentspróf.

Við ætlum að efla iðn- og verkmenntun m.a.  í samvinnu við atvinnulífið og tryggja að iðnám sé metið jafnt á við bóknám.

Ályktun 5 – Orkustefna til framtíðar

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur afar brýnt að landinu verði sett orkustefna þar sem tryggt verði að nýtingarréttur orkuauðlindanna verði hjá þjóðinni og jafnframt að þjóðin geti áfram átt Landsvirkjun og þannig nýtt arðinn til samfélagslegra verkefna. Hefja þarf þegar skoðun á orkupakka 4 með það að markmiði að málin verði tekin upp að nýju í sameiginlegu EES nefndinni og óskað undanþágu frá orkustefnu sambandsins í heild sinni.

Evrópusambandið hefur kynnt svokallaðan orkupakka 4. Nú standa Íslendingar aftur frammi fyrir því að þurfa að gera ráðstafanir til að verja fullveldi sitt. Leitast er við að breyta eðli alþjóðasamninga þannig að þeir feli í sér vald erlendra stofnana yfir innanlandsmálum. Unnið er að því að breyta stjórnarskrá landsins í því skyni að gera frekari eftirgjöf auðveldari. Miðflokkurinn mun beita sér fyrir því að þessi óheillaþróun verði stöðvuð og standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar.

Við höfnum orkustefnu ESB en styðjum orkustefnu tryggir nýtingu og arð til samfélagslegra verkefna, viljum áfram takmarka framsal valds í stjórnarskrá og stöðva orkupakka 4 leiði hann til frekara framsal fullveldis eða stjórnunar auðlinda.

Ályktun 6 – Innlend matvælaframleiðsla

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur afar brýnt að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu til lands og sjávar sem eina af grunnstoðum samfélagsins.
Þegar í stað þarf að grípa til aðgerða til að tryggja stöðu sauðfjárræktarinnar, eins og fram kemur nánar í greinargerð, og þegar í stað verði komið fram með mótvægisaðgerðir gegn þeim óhagstæða tollasamning sem nýlega hefur tekið gildi og er ógn við innlenda framleiðslu matvæla.

Miðflokkurinn styður gerð langtímastefnu um fæðuöryggi, samfélagslegu mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu ásamt öðrum þáttum byggðamála.

Nú er sótt að undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar frá landnámi úr ýmsum áttum. Látið er undan ósanngjörnum og hættulegum kröfum um aukinn innflutning matvæla sem standast ekki heilbrigðiskröfur, matvæla sem eru ekki framleidd við þau skilyrði sem íslenskum landbúnaði er ætlað að uppfylla. Einstaklega óhagstæður tollasamningur hefur nýlega tekið gildi og á sama tíma er gert ráð fyrir síminnkandi stuðningi við íslenska matvælaframleiðendur og neytendur. Um leið aukast íþyngjandi kröfur á íslenskan landbúnað jafnt og þétt. Það skekkir enn samkeppnisstöðu greinarinnar gagnvart erlendri framleiðslu. Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru undirstaða byggðar víða um land

Til að auðvelda hagræðingu í slátrun og afsetningu sauðfjárafurða þarf þegar í stað að setja í búvörulög ákvæði sem heimilar verkaskiptingu og samvinnu líkt og gildir um mjólkurvinnsluna og skilað hefur bæði neytendum og bændum gríðarlegum ábata.

Hvers konar eldi mun vaxa í framtíðinni  vegna vaxandi eftirspurnar eftir matvælum og þarf Ísland að taka þátt í þeirri þróun. Skýrar reglur og kröfur þurfa að vera til staðar m.a. er varðar umhverfismál.

Líkt og Miðflokkurinn hefur lagt til þarf að marka skýra auðlindastefnu m.a. um hvort og þá hvernig gjald verði innheimt fyrir nýtingu auðlinda.

Miðflokkurinn styður hugmyndir um verulega eflingu grænmetisræktunar hérlendis í stórum gróðurhúsum með útflutning að markmiði. Slíkum fyrirtækjum verði tryggð raforka á sanngjörnu verði.

Neytendur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um gæði matvöru m.a. uppruna, kolefnisspor, lyfjanotkun við framleiðslu o.fl..

Starfsumhverfi sjávarútvegsins þarf að vera fyrirsjáanlegt og þannig að enn meiri hvati verði í greininni til að fjárfesta í framtíðinni og þannig halda samkeppnisforskotinu.  

Miðflokkurinn vill sóknaráætlun fyrir íslenska matvælaframleiðslu byggða á langtímastefnu um fæðuöryggi, samfélagslegu mikilvæg og byggðaþróun.

 

Ályktun 7 – Efling ferðaþjónustu og atvinnulífs

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur að tafarlaust þurfi að bæta rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar sem býr nú við mótbyr vegna samdráttar.

Stærsta útflutningsgrein landsins býr enn þá við allt of mikla óvissu. Greinin hefur vaxið hratt undanfarin ár en þarf nú að takast á við hægari vöxt og jafnvel samdrátt. Mikilvægt er að bregðast við þessu með því að bæta rekstraraðstæður greinarinnar strax, t.d. með hraðari lækkun tryggingagjalds og að sveitarfélögum yrði gert kleift að lækka fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði, sem mun einnig gagnast atvinnulífi í heild. Þá verði einnig þegar í stað ráðist í að byggja upp varaflugvelli landsins t.d. á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Við ætlum að lækka tryggingagjald og efna til samtals við sveitarfélögin um lækkun skatta á atvinnuhúsnæði ásamt því að vinna með atvinnulífinu að eflingu þess.

 

Ályktun 8 – Umhverfismál

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur umhverfismál og viðbrögð við loftslagsbreytingum ein brýnustu verkefni samtímans. Ber því að grípa til raunhæfra og  árangursríkra lausna á því sviði. Ber þar fyrst að nefna mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu til lækkunar á kolefnisspori og eins að tekið verði á urðunnarmálum sorps af festu. Þá telur fundurinn að nýtt útspil umhverfisráðherra um urðunnarskatt vinni gegn þeim markmiðum.

Miðflokkurinn vill að kannað verði til hlítar að reisa umhverfisvænar sorpbrennslur fyrir allt landið í stað urðunnar sorps.

Náttúruvernd og önnur umhverfisvernd eru á meðal mikilvægust viðfangsefna samtímans. Viðbrögð stjórnvalda hafa hins vegar ekki verið í samræmi við það. Þau hafa allt of oft byggst á gagnslausri og jafnvel skaðlegri sýndarmennsku sem til dæmis birtist í nýjum sköttum án þess að þeim fylgi markmið eða aðferðir við að meta árangur af þeim. Þessu vill Miðflokkurinn breyta með umhverfisstefnu sem tekur mið af íslenskum aðstæðum og staðreyndum. Aðeins með því að beita vísindum og skynsemishyggju getum við náð raunverulegum framförum á sviði umhverfismála, en dæmi um slíkt er efling skógræktar. Í því tilliti þarf að efla ræktun skógarplantna.

Við höfnum skattagleði ríkisstjórnarinnar og viljum raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum í stað sýndaraðgerða. Nýta þarf sorp, auka skógrækt og innlenda framleiðslu.

 

Ályktun 9 – Samgöngur og flugumferð

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 leggur áherslu á að tekjur af umferð  og ökutækjum verði í stórauknum mæli eyrnamerkt til uppbyggingar og viðhalds á vegakerfinu. Þá verði einnig tafarlaust ráðist í frekari uppbyggingu varaflugvalla t.d. í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum svo þeir geti staðið undir nafni og þjónað því hlutverki sem þeim er ætlað. Isavia verði gert að verja nauðsynlegu fjármagni til þessara flugvalla til að tryggja flug til og frá landinu svo og flug yfir það í samræmi við alþjóðlega samninga samhliða nauðsynlegri uppbyggingu flugvalla og flugstöðvar í Keflavík.

Við höfnum auknum umferðarsköttum, leggjum áherslu á uppbyggingu varaflugvalla og bætta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

 

Ályktun 10 – Þjóðarsjóður í skugga skattheimtu

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 leggst alfarið gegn stofnun þjóðarsjóðs eins og fjármálaráðherra hefur lagt til á sama tíma og helstu innviðir kalla á verulega styrkingu og þjóðin er enn verulega skuldsett.

Miðflokkurinn leggst gegn stofnun þjóðarsjóðs og vill nýta fjármunina í innviðauppbyggingu og/eða lækkun álaga á heimili og fyrirtæki.

Ályktun 11 – Bætt löggæsla og aðgerðir gegn fíkniefna vá

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 telur að tafarlaust þurfi að bæta og endurskipuleggja löggæslu um land allt og landamæraeftirlit. Styrkja þarf bæði lögreglu og tollgæslu í baráttunni gegn innflutningi vímuefna. Jafnframt þarf að bregðast við auknum vanda sem steðjar að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fíkniefnum að bráð. Þá þarf stórátak í forvörnum og styrkingu meðferðarúrræða hjá opinberum heilsugæslum og viðurkenndum félagasamtökum eins og SÁÁ.

Miðflokkurinn vill láta framkvæma faglega úttekt á virkni Schengen samkomulagsins.

Við ætlum að efla forvarnir og meðferðar úrræði  í samstarfi við fagaðila, styrkja lög- og tollgæslu  í baráttunni við innflutning ólöglegra fíkniefna, lyfja o.þ.h.

 

Ályktun 12 – Heildstæð byggðastefna

Flokksráðsfundur Miðflokksins, haldinn í Reykjanesbæ 9. nóvember 2019 ítrekar að Miðflokkurinn mun áfram fylgja eftir þeirri stefnu sem kynnt var fyrir kosningar 2017 undir nafninu „Ísland allt“.

Miðflokkurinn mun áfram fylgja eftir stefnunni sem kynnt var fyrir kosningar 2017 undir nafninu „Ísland allt“. Í henni felst heildstæð stefna á öllum sviðum samfélagsins með það að markmiði að nýta kosti landsins alls og renna traustum stoðum undir byggðirnar hringinn í kringum landið. Þar skipta m.a. samgöngumálin gríðarlega miklu máli. Það er tímabært að hverfa frá viðvarandi og árangurslítilli vörn í samgöngumálum og hefja sókn á því sviði og fjárfesta í öllum nauðsynlegum innviðum sem eru til þess fallnir að Ísland virki sem sterk heild í þágu samfélagsins alls.

Við ætlum að efla landið allt með heildstæðir byggðastefnu þar sem önnur stefnumótun t.d. orkustefna, sóknaráætlun í matvælaframleiðslu og umhverfisstefna vinnur saman.

 

 

 TÓLF PUNKTA ÁHERSLUR FLOKKSRÁÐSFUNDAR MIÐFLOKKSINS HAUSTIÐ 2019

 

1. Opinber stjórnsýsla og einföldun regluverks.

Við ætlum að lækka skatta, leggja áherslu á ráðdeild og skilvirkni ríkisrekstrar, draga úr umfangi íþyngjandi regluverks og virða sjálfsákvörðunarrétt sveitarfélaga varðandi sameiningar.

2. Málefni eldri borgara og lífeyrisþega

Við ætlum m.a. að efna loforð stjórnvalda um að leiðrétta kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur og afnema skerðingar sem draga úr hvata til sjálfsbjargar og koma á sveigjanlegum starfslokum. 

3. Heilbrigðismál

Við ætlum að bregðast við bráðavanda Landspítala m.a. með endurskoðun á stjórnun, mönnun og innkaupum, byggja upp heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni og reisa nýjan landspítala á nýjum stað.

4. Staða iðn- og verkmenntunar

Við ætlum að efla iðn- og verkmenntun m.a.  í samvinnu við atvinnulífið og tryggja að iðnám sé metið jafnt á við bóknám.

5. Orkustefna til framtíðar

Við höfnum orkustefnu ESB en styðjum orkustefnu tryggir nýtingu og arð til samfélagslegra verkefna, viljum áfram takmarka framsal valds í stjórnarskrá og stöðva orkupakka 4 leiði hann til frekara framsal fullveldis eða stjórnunar auðlinda.

6. Innlend matvælaframleiðsla

Miðflokkurinn vill sóknaráætlun fyrir íslenska matvælaframleiðslu byggða á langtímastefnu um fæðuöryggi, samfélagslegu mikilvæg og byggðaþróun.

7. Efling ferðaþjónustu og atvinnulífs

Við ætlum að lækka tryggingagjald og efna til samtals við sveitarfélögin um lækkun skatta á atvinnuhúsnæði ásamt því að vinna með atvinnulífinu að eflingu þess.

8. Umhverfismál

Við höfnum skattagleði ríkisstjórnarinnar og viljum raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum í stað sýndaraðgerða. Nýta þarf sorp, auka skógrækt og innlenda framleiðslu.

9. Samgöngur og flugumferð

Við höfnum auknum umferðarsköttum, leggjum áherslu á uppbyggingu varaflugvalla og bætta aðstöðu á Keflavíkurflugvelli.

10. Þjóðarsjóður í skugga skattheimtu

Miðflokkurinn leggst gegn stofnun þjóðarsjóðs og vill nýta fjármunina í innviðauppbyggingu og/eða lækkun álaga á heimili og fyrirtæki.

11. Bætt löggæsla og aðgerðir gegn fíkniefna vá

Við ætlum að efla forvarnir og meðferðarúrræði  í samstarfi við fagaðila, styrkja lög- og tollgæslu  í baráttunni við innflutning ólöglegra fíkniefna, lyfja o.þ.h..

12. Heildstæð byggðastefna

Við ætlum að efla landið allt með heildstæðir byggðastefnu þar sem önnur stefnumótun t.d. orkustefna, sóknaráætlun í matvælaframleiðslu og umhverfisstefna vinnur saman.