Áramótaverðlaun SLF fyrir árið 2022

Áramótaverðlaun Sjónvarpslausra fimmtudaga fyrir árið 2022

Sigmundur Davíð og Bergþór fóru yfir árið 2022 í áramótaþætti Sjónvarpslausra fimmtudaga og veittu hin árlegu SLF verðlaun.

 

Framkvæmdamenn ársins: Forsætisnefnd Alþingis fyrir hugleiðingar sínar um að standa við eigin ályktanir um að taka til á Austurvelli.

Sölumaður ársins: Jón Gunnar Jónsson, forstjóri bankasýslunnar fyrir að selja fjármálaráðherra, ráðherranefnd um ríkisfjármál, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd þingsins aðferð við sölu Íslandsbanka og selja svo bankann með þeirri aðferð áður en ráðherrar kenndu honum um söluferlið.

Standup ársins: Ræða formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi. Góðar skemmtisögur og fyrir að grínast með eigin flokk með því að segja að hann ætlaði að boða skattalækkanir  …í næstu kosningabaráttu.

Fjárfestingafélag ársins: Betri samgöngur ohf. fyrir að fá Sjálfstæðisflokkinn til að tryggja að skattgreiðendur í Bolungarvík borgi Borgarlínuna fyrir Samfylkinguna í Reykjavík.

Handbók ársins: Handbók Reykjavíkur um vetrarþjónustu.

Nefnd ársins: Nefnd Reykjavíkur um endurskoðun handbókar um vetrarþjónustu.

Jólabók ársins: Bók Íslandsbanka um kenningar Grétu Thunberg sem þröngvað er upp á börn sem opna reikning í bankanum.

Herforingi ársins: Katrín Jakobsdóttir sem leiðir þátttöku Íslands í NATO.

Vonbrigði ársins: Útgjaldavöxtur ríkissjóðs undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Gleðigjafi ársins: Ríkisstjórnin fyrir bönn og sérstaka skatta á plastskeiðar, diska, skraut, blöðrur og allt sem gæti komið við sögu í barnaafmæli.

Austur Þjóðverjar ársins: Rúv fyrir að nýta barnaefni á jólum til pólitískrar innrætingar barna.

Kaldhæðni ársins: Auglýsingar Sjálfstæðisflokksins á samfélagsmiðlum um lægri skatta, minni útgjöld, einföldun regluverks og mikilvægi fullveldis.

Íþróttafélag ársins: KSÍ fyrir að eyða árinu í umræðu um gjafir til landsliðsmanna og allt mögulegt annað en keppni í fótbolta.

Staðgönguvara ársins: Sænskt kók selt í staðin fyrir íslenskt kók á Íslandi.

Prinsippmenn ársins: Forsætisnefnd vegna siðanefndarmáls Sigurðar Inga Jóhannssonar.

Hringrásarhagkerfi ársins: Íslenska heilbrigðiskerfið fyrir að halda áfram að senda sjúklinga til útlanda til meðferðar á sjálfstætt starfandi sjúkrastofnunum á Íslandi fyrir þrefalt verð á meðan erlendir sjúklingar eru fluttir til Íslands til að nýta aðstöðuna hér.

Samvinnumaður ársins: Sigurður Ingi Jóhannsson fyrir lög um niðurlagningu samvinnufélaga í þágu alþjóðlegra stórfyrirtækja sem hafa verið staðin að því að stunda undirboð þar til þau taka yfir markaðinn og flytja loks hagnaðinn úr landi.

Vísindamaður ársins: Loftslagsráðherra fyrir áform um að banna rannsóknir í íslenskri efnahagslögsögu.

Bjartsýnismaður ársins: Fjármálaráðherra fyrir að gera ráð fyrir hallalausum fjárlögum 2027, þ.e. þegar önnur ríkisstjórn verður tekin við.

Frelsishetja ársins: Björn Leví Gunnarsson sem setti eigin baráttu fyrir því að fá að vera illa til fara á Alþingi í samhengi við frelsisbaráttu kvenna í Íran sem máttu þola ofbeldi vegna klæðaburðar.

Frystivara ársins: Formaður Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, sem var frystur úti af ríkisstjórninni og látinn bíða í brunagaddi bæði fyrir utan innviðaráðuneytið og Ráðherrabústaðinn án þess að ná áheyrn ráðherra.

Vinir ársins. Dómsmálaráðherra og Félagsmálaráðherra fyrir að tjá sig ítrekað um eindregna samstöðu sína í hinum ýmsu málaflokkum.

Söluvara ársins: Ísland sem söluvara glæpagengja.

Huldumaður ársins: Borgarstjórinn í Reykjavík fyrir að hverfa í hvert sinn sem gagnrýni beinist að stjórnarháttum og öðru klúðri í borginni.

Borðaklippari ársins: Borgarstjórinn í Reykjavík fyrir að birtast í hvert sinn sem til stendur að kynna háleit áform eða klippa á borða þegar búið er að loka götum.

Vinnuveitandi ársins: Reykjavíkurborg fyrir að hugleiða að hætta að ráða ónauðsynlega starfsmenn, fækka leikskólakennurum og fjölga upplýsingafulltrúum.

Spámenn ársins: Ríkisstjórnin fyrir að banna vinnslu og rannsóknir á olíu og gasi á Drekasvæðinu á sama tíma og Evrópu skortir gas umfram allt annað og ESB skilgreinir gas sem náttúruvænan orkugjafa.

Matvælaframleiðandi ársins: Matvælaráðherra fyrir að vilja losna við kjöt- og mjólkurframleiðslu á Íslandi.

Viðskipti ársins: Afhending Keldnalandsins til fyrirtækis sem á að nota það til að fjármagna auknar umferðarteppur í Reykjavík.

Stefnufesta ársins: Afstaða innviðaráðherra til veggjalda. Hann var með og svo á móti, með og síðan á móti en er nú eindregið fylgjandi veggjöldum og það í enn meira mæli en áður.

Íslandsmet ársins: Fjárlagafrumvarpið fyrir að slá met í útgjöldum ríkissjóðs, útgjaldaaukningu milli ára (hlutfallslega og í krónutölu), stærsta báknið og minnstu væntingarnar um að reka ríkið hallalaust í fyrirsjáanlegri framtíð.

Lögskýring ársins: Ákvörðun um að breyta óvæntu auka framlagi til fjölmiðla í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar.

Markaðsmenn ársins: Íslenska ríkið fyrir að gera landið að langvinsælasta áfangastað hælisleitenda.

Veðurspámenn ársins: Þeir sem kröfðust þess að ríkisstjórnin lýsti yfir hamfarahlýnunun á Íslandi skömmu fyrir óvenju kalt sumar og kaldasta vetur í heila öld.

Sjálfstæðismaður ársins: Einar Þorsteinsson fyrrum varaformaður ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi og varadekk Framsóknarflokksins fyrir vinstri meirihlutann í Reykjavík.

Þráhyggjumenn ársins: Viðreisn eftir að meira að segja Samfylkingin sætti sig við að Ísland væri ekki á leið í Evrópusambandið.

Leikskóli ársins: Ráðhús Reykjavíkur.

Jólasveinn ársins: Ásmundur Einar Daðason og álfarnir sem útdeila gjöfum með SMSum.

Dómsátt ársins: Greiðsla forsætisráðherra til konu sem dómstólar höfðu ítrekað sagt að ætti ekki rétt á skaðabótum. Ástæðan var sú að viðkomandi væri kona.

Frétt ársins: Áhugaleysi fjölmiðla á pólitískri ritskoðun Twitter á undanförnum árum.

Samruni ársins: Ríkisfjölmiðlarnir Stundin og Kjarninn sameinast loks formlega en þriðja hjólið undir vagninum, Ríkisútvarpið, bíður átekta á meðan Félagsþjónusta Reykjavíkur leigir húsnæði sem gæti nýst undir Stundina og Kjarnann.

Metnaðargirni ársins: Garðabær fyrir að reyna að verða meira woke en Reykjavík.

Eyja ársins: Heimaey fyrir að segja sig ekki frá Íslandi.

Ráðherra ársins: Utanríkisráðherra fyrir að blanda sér ekki í íslensk stjórnmál.

Efnahagsráðgjafi ársins: Fjórtán ára sonur Arnars Þórs Jónssonar varaþingmanns fyrir að útskýra í einni setningu það sem ríkisstjórnin hefur ekki áttað sig á á 5 árum, að það þurfi ekki að leggja meiri álögur á landsmenn ef stjórnvöld draga úr eyðslu.

Brynjar ársins: Brynjar Níelsson.

Snjómokstursmaður ársins: Einar Þorsteinsson.

Sorphirðumaður ársins: Einar Þorsteinsson.

Dýralæknar ársins: Samgönguráðherra, vegamálastjóri og stjórnarformaður betri samgangna ehf.

Dómsmálaráðherra ársins: Katrín Jakobsdóttir.

Grín ársins: Reykjavíkurborg.

Gjaldþrot ársins: Reykjavíkurborg.

Samningamaður ársins: Sólveig Anna Jónsdóttir.

Villi ársins: Vilhjálmur Birgisson – verkalýðsleiðtogi.

Fasteignaþróunarfélag ársins: Betri samgöngur ohf.

Umhverfisverndarsinnar ársins: Íslenskur áliðnaður fyrir stærsta framlag Íslands til loftslagsmála á heimsvísu.

Tvíverknaður ársins: Sérstakt apparat búið til hjá Húsnæðis og mannvirkjastofnun til að greina þróun leigusamninga á sama tíma og öllum leigusamningum er þegar þinglýst og þeir skráðir árlega.

Falsfrétt ársins: Á föstudegi sagði RÚV að Twitter myndi að öllum líkindum loka endanlega þá um helgina. Á mánudegi náði notendafjöldinn nýju hámarki.

Spámaður ársins: Ríkisútvarpið fyrir spá (óskhyggju) um endalok Twitter.

 

HLUSTAÐU Á ÞÁTTINN HÉR

ÞÁTTURINN Á SPOTIFY