Átakastjórnmál eru nauðsynleg

Æði undarlegu fyrsta þingi þessa kjörtímabils fer senn að ljúka. Í seinni tíma stjórnmálasögu hefur pólitísk misklíð ekki komið jafn hratt upp á milli stjórnarflokka og nú er raunin enda hefur hún ekki lengur skjól af heimsfaraldrinum frá pólitískri umræðu. Það eru margir búnir að gleyma því að þegar heimsfaraldur Covid-19 brast á, þá voru innri mein ríkisstjórnarinnar orðin mörg og mikil og ekki óvarlegt að ætla að heimsfaraldurinn hafi í raun bjargað lífi stjórnarinnar á síðasta kjörtímabili.

En nú er staðan önnur og mörg stór þingmál hafa verið í fullkomnu uppnámi á lokaspretti þingsins. Sem dæmi má nefna að mál sem varðar grundvallaruppstokkun á regluverki á leigubílamarkaði fær þannig meðhöndlun að samanlagt engir gestir voru kallaðir fyrir umhverfis- og samgöngunefnd á þeim tíma sem starfsáætlun Alþingis gerði ráð fyrir að þingið væri að störfum. Samt ætla stjórnarflokkarnir sér að klára það mál fyrir þinglok. Það er í raun alveg forkastanlegt hjá stjórnarflokkunum að hafa ætlað að gjörbylta starfsumhverfi heillar stéttar án þess að ræða við fulltrúa hennar.

Þetta fyrsta þing kjörtímabilsins hefur þannig að mörgu leyti sýnt okkur að sú tilraun að tengja saman stjórnmálaflokka frá argasta vinstri, yfir miðjuna og til hægri er ekki til þess fallin að færa samfélagið fram á veginn. Kerfisstjórn skilar engum árangri fyrir neinn – hún skilar aðeins stöðnun og skorti á framförum á öllum sviðum.

Það þarf nefnilega að takast á um hlutina til að hreyfa við þeim, þoka áfram umræðunni þannig að besta lausnin verði ofan á, þjóðarbúinu til heilla. Þess vegna eru átakastjórnmál nauðsynleg til að breytingar verði. Stjórnmálamenn eiga að takast á um hugmyndir, um stefnu, þeir eiga að takast á um það hvort umfang hins opinbera á að vaxa eða minnka. Hvort hefðbundin borgaraleg gildi, sem hafa fært þjóðina frá örbirgð til velsældar á undrastuttum tíma, eigi að vera í forgrunni áfram, eða hvort við göngumst á hönd rétttrúnaðinum sem nú tröllríður hinum vestræna heimi, woke-ismanum þar sem umbúðir skipta meira máli en innihald.

Ef við tökumst ekki á, tökumst ekki á um hugmyndir, um stjórnmál og lausnir – þá munum við fljóta sofandi að feigðarósi. Ef landsmenn vilja samfélag byggt á einstaklingsfrelsi og hóflegum afskiptum ríkisvaldsins, samfélag sem grundvallast á styrkum stoðum réttarríkisins en ekki samfélag þar sem dómstóll götunnar verður jafnsettur hinum formlegu, þá hvet ég fólk til að hvílast vel í sumar og taka umræðuna með okkur miðflokksmönnum í haust. Tökum umræðuna á kaffistofunum, við eldhúsborðið, í heitu pottunum og í saumaklúbbunum. Því það mun raunverulega skipta máli. Við verðum að fara að tala um hugmyndir. Þannig færumst við áfram sem samfélag.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 11. júní, 2022.