Brellumeistarar borgarinnar

Það verður seint af Reykjavíkurborg tekið að þar hafa menn yfir að ráða miklum brellumeisturum.  Nýjasta dæmið um brellur borgarstjóra er hugmyndasöfnun fyrir verkefnið Hverfið mitt sem hófst 4. nóvember sl. og stendur til 20. janúar 2021. Þessu svokallaða lýðræðisverkefni hefur nú verið breytt þannig að það nær yfir tvö ár, kosning fer fram á tveggja ára fresti, útdeiling fjármagns sömuleiðis og hugmyndasöfnunin stendur lengur. Rökstuðningurinn fyrir þessari breytingu að hafa úthlutun á tveggja ára fresti í stað árlega er m.a. sá að með þessu nýja fyrirkomulagi gefist tækifæri til að auka samráð við höfunda hugmyndanna og íbúa í hverfunum, bæði hvað varðar hönnun og framkvæmd á verkefnum þeirra. Íbúar eru jafnframt beðnir um að koma með hugmyndir að stærri og dýrari verkefnum enda hefur fjármagn verið „nær tvöfaldað“ og verður að þessu sinni 850 milljónir króna í stað 450 milljóna áður. Reykjavíkurborg hefur semsagt „næstum tvöfaldað framlagið“ að eigin sögn og ætlar að dreifa því yfir á tvö ár. Tær snilld eins og maðurinn sagði eitt sinn. Ég held að það sé ekki hægt að fara frjálslegar með útgjaldaminnkun upp á 50 milljónir. Ég tala fyrir sparnaði og hagræðingu í öllum rekstri borgarinnar eins og flestum ætti að vera ljóst en hvers vegna þarf sparnaðurinn að vera settur fram í sellófan með slaufum? Hér er um að ræða niðurskurð um 50 milljónir til hverfanna í Reykjavík þar sem íbúarnir hafa sjálfir valdið hvað má betur fara í nærumhverfi þeirra. Eins hefði verið hægt að bralla það upp að tífalda framlagið og dreifa því yfir 40 ár. Auðvitað sjá allir í gegnum þessa brellu og lýðræðisverkefnið Hverfið mitt mætir niðurskurði um 25 milljónir á ári því gæluverkefna lúpa borgarstjóra er óseðjandi. Ég vil hvetja sem flesta að skila inn tillögum um nærumhverfi sitt en minni í leiðinni á að fólk verði vakandi að stinga ekki upp á verkefnum sem eru lögbundin. Reykjavíkurborg verður að uppfylla sitt lögbundna hlutverk með öðru fjármagni en því sem er eyrnamerkt þessu verkefni. Eins vil ég nefna það hér að ég brosi í kampinn með þá ákvörðun að færa verkefnið yfir í tveggja ára ferli eins og boðað er því öllum má vera ljóst að farið verður í þau verkefni sem valin verða síðsumars næsta árs og næsta vetur. Það vill nefnilega svo vel til að þá er korter í næstu borgarstjórnarkosningar. Tilviljun eða brellur?

 

Höfundur:  Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Grafarvogs-, Árbæjar- og Grafarholtsblaðinu þann 18. nóvember, 2020