Þjóðferjuleiðir - Frumvarp til laga um breytingu á vegalögum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mætli fyrir frumvarpi til laga á Alþingi um breytingu á vegalögum, nr. 80/2001, með síðari breytingum, þjóðferjuleiðir.

Frumvarpið kveður á um að við 2. mgr. 8. gr. laganna bætist nýr stafliður; Þjóðferjuleiðir.  Þjóðferjuleiðir eru hluti af grunnkerfi samgangna eins og það er skilgreint í samgönguáætlun hverju sinni.  Til þjóðferjuleiða teljast leiðir þar sem ferja kemur í stað vegasambands um stofnveg og tengir byggðir landsins sem umluktar eru sjó við grunnkerfi samgangna á meginlandinu.

Í samgönguáætlun skuli ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur sem þjónusta þjóðferjuleiðir til flutnings á fólki og bifreiðum. Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.

Árum saman hafa samgöngumál á leiðinni til Vestmannaeyja verið til umræðu. Vestmannaeyjar hafa mikla sérstöðu í samgöngulegu tilliti og er mat flutningsmanna að það sé hlutverk hins opinbera að tryggja þangað góðar og greiðar samgöngur á sanngjörnu verði, með nákvæmlega sama hætti og hið opinbera stendur straum af rekstri sameiginlegs vegakerfis, hafna og flugvalla.

Leysa þarf þann samgönguvanda sem snýr að Vestmannaeyjum og öðrum byggðum eyjum við landið. Þær eyjar sem búseta er í árið um kring eru um þessar mundir fjórar talsins, Heimaey í Vestmannaeyjum, Grímsey úti fyrir Eyjafirði, Flatey á Breiðafirði og Hrísey á Eyjafirði.

Markmið frumvarpsins er að ákveðnar ferjuleiðir falli undir skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum vegna sérstöðu sinnar. Lagt er til að þjóðferjuleiðum verði bætt við skilgreiningu vegalaga á þjóðvegum. Undir þessa nýju skilgreiningu falla þá ferjuleiðir sem tengja byggðar eyjar við grunnvegakerfi landsins.+

Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum í vegalögum. Tíðni þeirra samgangna og þjónustustig verði skilgreint eins og ríkisvaldið gerir með aðrar samgöngur um vegi í þjóðvegakerfi landsins. Þannig verði lagðar þær skyldur á ríkisvaldið að halda opnum öllum skilgreindum þjóðferjuleiðum í landinu.

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér.

Málið gengur nú til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Flutningsræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér

Flutningsmaður:  Karl Gauti Hjatason

Meðflutningsmenn:  Ari Trausti Guðmundsson, Ásmundur Friðriksson, Birgir Þórarinsson, Oddný G. Harðardóttir, Páll Magnússon, Vilhjálmur Árnason, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson.