Breytingar í bakgarðinum

Nú er vorið í allri sinni dýrð á næsta leiti og þá er tímabært að huga að hvernig garðurinn kemur undan vetri. Árbæingar hafa flestir orðið varir við hvaða breytingum er verið að lauma í gegn í bakgarði hverfisins. Jú hin gerræðislega aðgerð að tæma Árbæjarlón í skjóli nætur án tilskilinna leyfa. Forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur bendir á undirmenn sína. Það er ekki stórmannlegt – ekki frekar en það er stórmannlegt af borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni að fría sig ábyrgð af þessum ólöglega gjörningi.

Allir sem þekkja til í borginni vita að svona ákvarðanir eru ekki teknar nema með vilja, vitund og tilmælum frá borgarstjóra. Þetta er bara byrjunin. Orkuveita Reykjavíkur fór af stað með „Planið“ eftir gjalþrot fyrirtækisins eftir hrun sem leiddi af sér stórfelldar hækkanir á gjaldskrám sem ekki hafa verið teknar til baka. Nú er borgarstjóri að fara af stað með „Stóra planið“ sem byrjar með tæmingu Árbæjarlóns. Næst verður hin 100 ára stífla rifin þrátt fyrir menningargildi hennar. Vitringarnir 5 voru sendir af stað og kvittuðu undir grein um að Dillonshús þyrfti að fara heim til sín. Þar með er atlagan byrjuð að Árbæjarsafni. Skipulag byggðar neðan Ártúnsholts að Elliðaám – að Rafveituvegi þar sem fyrrum starfsmenn OR fengu starfsmannabústaði rafstövarinnar ódýrt er lengra komið að mínu mati en okkur er sýnt.

Við verðum að sjá í gegnum salamiaðferð borgarstjóra – ein sneið í einu. Í það minnsta hefur verið ráðist í stjórkostlegt jarðrask á þessu svæði með nýjum lögnum sem gætu þjónað stóru byggðarlagi. Í okkur kjörna fulltrúa og borgarbúa er svo hent smáköku sem er 100 ára afmælissýning Orkuveitu Reykjavíkur í gömlu stöðvarhúsunum. Ekki má gleyma í þessu samhengi stóru innrásinni í Elliðarárdalinn með leyfisveitingu fyrir Bio Dome sem er hluti þessa „Stóra plans“. Tilgangurinn – jú réttlæting á borgarlínu og áframhaldandi þétting byggðar á hverjum einasta græna bletti innan borgarmarkanna vestan Höfðabakka. Já þetta er það sem er að gerast í bakgarði ykkar kæru Árbæingar.

Ég stend fyrir umræðu um Elliðarárdalinn og tæmingu Árbæjarlóns á næsta borgarstjórnarfundi sem haldinn verður 20. apríl nk. Ég hvet ykkur öll að fylgjast vel með þeim umræðum.

Vigdís Haukdsóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins

Greinin birtist í Árbæjarblaðinu þann 8. apríl, 2021