Breytingartillögur Miðflokksins við frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021

Birgir Þórarinsson þingmaður og fulltrúi Miðflokksins í Fjárlaganefnd Alþingis skilaði þriðja minnihluta áliti fjárlaganefndar og mælti í gær fyrir breytingatillögum Miðflokksins við frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2021.  

Breytingartillögur Miðflokksins
Hér á eftir má sjá yfirlit yfir breytingartillögur Miðflokksins við fjárlagafrumvarpið.  Nefndarálitið með breytingartillögunum má lesa í heild sinni hér.

Tillögurnar eru að fullu fjármagnaðar og auka því ekki á skuldasöfnun ríkissjóðs, sem er mikilvægt vegna mikillar skuldasöfnunar ríkissjóðs á undanförnum mánuðum. Breytingartillögur 3. minni hluta gerir ráð fyrir því að þessu verði mætt með sölu nýbyggingar Landsbankans við Austurhöfn ásamt lóð. Áætlað söluandvirði lóðarinnar er 2 milljarðar kr. og byggingarinnar um 7 milljarðar kr. eins og hún er nú. Söluandvirðið renni í ríkissjóð en ríkissjóður á 98,2% hlut í bankanum. 

Áhugaleysi um kjör eldri borgara.

Óumdeilt er að kjör þeirra aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu. Þeir sem engar aðrar tekjur hafa en lífeyri almannatrygginga eru verst settir. Upphæð lífeyris hefur dregist jafnt og þétt aftur úr launum. 
Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að eldri borgarar sem búa við lökust kjörin fái sérstaka skattfrjálsa eingreiðslu upp á 70.000 kr. Upphæðin er sú sama og öryrkjar fá á árinu.

Skerðingum linni á greiðslum til eldri borgara og lífeyrisþega.

Skerðingar á greiðslum almannatrygginga til lífeyrisþega hefur borið hátt í umræðu undanfarin ár. Fyrirkomulagið er út af fyrir sig einfalt. Fjárhæð ellilífeyris er ákveðin árlega. Hún er nú 256.789 kr. á mánuði. Hafi fólk tekjur skerðist þessi lífeyrir eftir ákveðinni reglu. Þetta eru skerðingarnar.
Aldrað fólk er í skotlínunni þegar kemur að skattlagningu fyrir vinnu. Enginn þjóðfélagshópur stendur frammi fyrir öðrum eins jaðarsköttum og aldraðir mega þola. Þetta fyrirkomulag ofurskattlagningar felur í sér brot gegn óskráðri reglu í mannlegu félagi, að hverjum manni er boðið að bæta hag sinn með aukinni vinnu ef vilji og geta standa til þess. 

Atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur.

Miðflokkurinn hefur lagt ríka áherslu á að afnema tekjutengingu bóta vegna launatekna eldri borgara og flytur 3. minni hluti breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að atvinnutekjur eldri borgara skerði ekki lífeyrisgreiðslur. Tillaga þessi hefur óveruleg áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs, þvert á móti hefur verið sýnt fram á það í áðurnefndum útreikningum að hún auki tekjur ríkissjóðs þegar hún hefur komið til framkvæmda.
Eldri borgarar eiga að geta tekið þátt á vinnumarkaði eins og hverjum og einum hentar án þess að þurfa að taka á sig skerðingu á lífeyri. Það bætir lífsgæði þeirra og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Atvinnuleysi og frekari lækkun tryggingagjalds.

Horfur á vinnumarkaði eru ekki góðar og er það fyrst og fremst rakið til veirufaraldursins og hruns í ferðaþjónustunni og tengdum greinum. Um 25.000 manns voru atvinnulausir í lok októbermánaðar samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar. 

Miðflokkurinn flytur breytingartillögu við frumvarpið um að tryggingagjaldshlutfallið lækki tímabundið í eitt ár um 3,3 milljarða kr. á næsta ári til viðbótar við þá lækkun sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Lækkun tryggingagjaldsins gerir fyrirtækjum auðveldara að ráða nýtt starfsfólk og að gera betur við það sem fyrir er, sem eykur síðan skatttekjur ríkissjóðs. Ávinningurinn af verulegri lækkun gjaldsins, tímabundið vegna veirufaraldursins, er mikill og ekki síst nú þegar atvinnuleysi er mikið.

Sveitarfélög í vanda.

Sveitarfélögin gegna mikilvægu hlutverki í viðspyrnunni þegar veirufaraldurinn líður undir lok. Fjárfestingaráætlun sveitarfélaganna er mjög mikilvæg í því að vinna gegn niðursveiflunni. Ljóst er að verði ekki komið til móts við sveitarfélögin eru þau nauðbeygð til að draga úr fjárfestingum og hafa minni fjárhagslega getu í viðspyrnu. Fjárfestingarþörfin er uppsöfnuð ekki síst vegna þess að það dró mjög úr henni í kjölfar efnahagshrunsins. Þá er rétt að hafa í huga að sveitarfélögin fengu ekki sértækan stuðning frá hinu opinbera eftir efnahagshrunið.
Mörg hver sveitarfélaganna á landsbyggðinni komu því á framfæri við fjárlaganefnd, bæði í umsögnum og á fundum með nefndinni, að mikilvægt væri setja kraft í verkefnið „Störf án staðsetningar“ en í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að ráðuneytum og stofnunum verði falið að skilgreina störf og auglýsa þau án staðsetningar eins og kostur er. Kom það fram af hálfu sveitarfélaganna að það væru vonbrigði hversu hægt hefði gengið að hrinda þessu mikilvæga verkefni af stað.
 
Málefni hælisleitenda í ólestri – breytinga þörf á lagaumhverfi.

Málefni flóttamanna og annarra innflytjenda eru með stærstu málum sem þjóðir heims standa frammi fyrir. Innflytjendamál á Íslandi einkennast af vanmætti stjórnsýslunnar til að ráða við afgreiðslu umsókna innan viðunandi tímamarka. Hefur þetta leitt af sér sívaxandi útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins sem fylgt hafa lögmáli veldisvaxtar. 

Miðflokkurinn leggur á næstu dögum fram tillögu til þingsályktunar þar sem Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að flytja frumvarp um breytingu á útlendingalögum sem hafi að markmiði að hemja útgjöld ríkissjóðs til málaflokksins og auka skilvirkni í málsmeðferð. Frumvarpið verði lagt fram eigi síðar en 1. mars 2021 svo lögfesta megi nauðsynlegar breytingar fyrir þinglok. Áhersla verði lögð á þau markmið að tryggja að ákvörðunartími um hvort umsókn hælisleitenda fái efnislega meðferð verði að hámarki 48 klukkustundir og að niðurstaða efnislegrar málsmeðferðar liggi fyrir innan sex mánaða. 
    
Landbúnaður í vanda – frekari stuðningur nauðsynlegur.

Staðan í landbúnaði, sérstaklega kjötmarkaði, er ekki góð og rekstrarforsendur í raun brostnar. Þriðji minni hluti leggur til breytingar við frumvarpið um aukinn stuðning við kjötframleiðendur og sérstakan stuðning vegna mikillar birgðasöfnunar í mjólkurpróteini.

Ríkisútvarpið og tillaga Miðflokksins um breytingar á útvarpsgjaldi.

Allir þeir sem eru skattskyldir á Íslandi greiða sérstakt gjald til RÚV ohf. Útvarpsgjaldið, sem lagt er á við álagningu opinberra gjalda ár hvert, er lagt á þá lögaðila sem bera sjálfstæða skattskyldu skv. 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, aðra en dánarbú, þrotabú og þá lögaðila sem undanþegnir eru skattskyldu skv. 4. gr. sömu laga. Gjaldið nemur fastri fjárhæð sem er ákvörðuð með lögum. Hér er um að ræða nefskatt sem engin skattskyldur aðili kemst undan að greiða. Skiptir þá engu hvort hann geti notað fjölmiðlaþjónustu þess eða skilið hana, nú eða yfir höfuð sætt sig við þjónustuna. 

Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að fyrirhuguð hækkun á útvarpsgjaldi, sem nemur um 170 millj. kr., komi ekki til framkvæmda. Tillagan er í eðlilegu samhengi við tillögu til þingsályktunar sem Miðflokkurinn leggur fram á næstu dögum um breytingar á ráðstöfun á útvarpsgjaldinu. Tillagan er á þann veg að Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra í samráði við fjármála- og efnahagsráðherra að breyta lögum um ráðstöfun útvarpsgjalds. Lítur breytingin að því að hverjum og einum greiðanda útvarpsgjalds skuli heimilt að ráðstafa allt að þriðjungi gjaldsins (33%) að eigin vali til annarra fjölmiðla.

Landspítalinn – margþættur fjárhagsvandi.

Landspítalinn er stærsta og mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins. Hann hefur á að skipa framúrskarandi starfsfólki sem vinnu óeigingjarnt starf á hverjum degi, oft við erfiðar aðstæður. Það hefur sannarlega sýnt sig í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn undanfarna mánuði. Miklar umræður hafa skapast um rekstrarvanda spítalans og nú síðast um uppsafnaðan vanda frá fyrri árum.  Stjórnvöld verða að horfast í augu við vandann og tryggja langtímafjármögnun mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins. 

 

Málefni öryrkja – fjölgun starfa með stuðningi.

Vinna þarf markvisst að því að styrkja möguleika fatlaðs fólks og öryrkja á almennum vinnumarkaði. Atvinnuþátttaka öryrkja hér er minni en í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við og umfang starfsendurhæfingar er mun minna. Útgjöld hins opinbera vegna örorkulífeyris eru veruleg í flestum löndum OECD.  Í gegnum atvinnu með stuðningi fá þeir sem hafa skerta vinnugetu vegna andlegrar eða líkamlegrar fötlunar aðstoð við að finna starf á almennum vinnumarkaði. Hér er því um mikilvægt úrræði að ræða fyrir þá sem hafa skerta starfsgetu. 

3. minni hluti leggur til breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að Vinnumálastofnun fái aukafjárveitingu upp á 200 millj. kr. svo að efla megi þetta mikilvæga úrræði og fjölga vinnusamningum öryrkja. 

Málefni fatlaðra og NPA.

Reynsla hefur nú komist á framkvæmd laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018. Lögin heimila m.a. gerð svokallaðra NPA-samninga, eða samninga um notendastýrða persónulega aðstoð til handa fötluðum. Lögin fela í sér mikla réttarbót fyrir fatlaða. Með því að gera samning um notendastýrða persónulega aðstoð fær notandi greiðslur í stað þjónustu. 
Að sjálfsögðu er þetta mikil réttarbót, en það verða þá að vera til peningar til þess að veita þjónustuna. Sveitarfélögin þurfi einnig að halda úti þeim úrræðum sem voru áður notuð, eins og sambýlum, vegna þess að NPA-einstaklingur á rétt á því að snúa aftur til baka, t.d. í sambýli óski hann þess.

3. minni hluti fagnar fram kominni breytingartillögu nefndarinnar um 300 millj. kr. aukaframlag til málaflokksins, svo að fjölga megi samningum.

Gjaldskrárhækkanir hins opinbera kynda undir verðbólgu.

Fastur liður eins og venjulega í tengslum við fjárlagafrumvarpið eru breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til einföldunar er þetta nefnt gjaldskrárhækkanir og taka þær iðulega gildi um áramót. Þessar hækkanir hafa að sjálfsögðu verðlagsáhrif, hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og kynda undir verðbólgu. Í núverandi árferði atvinnuleysis og mikillar hækkunar á nauðsynjavöru er þetta að sjálfsögðu óskynsamlegt og vill 3. minni hluti hvetja stjórnvöld til að falla frá þessum áformum. Ríkisvaldið á að taka virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efna ekki til hækkana umfram það sem algjörlega nauðsynlegt getur talist. Verðbólga hefur verið lág undanfarin misseri og verður ekki séð að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið gangi fram með þessum hætti. Gæta verður ítrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar. Á það sérstaklega við nú á tímum mikillar óvissu í efnahagsmálum.

Kennitöluflakk verður að uppræta.

Kennitöluflakk er meinsemd í íslensku efnahagslífi sem er fólgin í misnotkun á reglunni um takmarkaða ábyrgð hluthafa. Sterkar líkur eru á því að íslenskt samfélag verði árlega af tugum milljarða króna vegna kennitöluflakks. Þeir sem verða fyrir tjóni vegna þessa eru kröfuhafar viðkomandi félags sem geta einkum verið fyrirtæki, ríkissjóður, stéttarfélög, lífeyrissjóðir og launamenn landsins.

Þriðji minni hluti leggur til breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að settar verði 50 millj. kr. í baráttuna gegn kennitöluflakki til skattrannsóknarstjóra.

Stefnulaus kolefnisskattur bitnar verst á tekjulágum.

Kolefnisskattur er nýr skattur á Íslandi. Hann er lagður á jarðefnaeldsneyti og á að draga úr útblæstri og hvetja til orkuskipta í samgöngum. Skatturinn hækkar um áramótin og verður 11,75 kr. á hvern lítra af dísilolíu og 10,25 kr. á bensíni, sem síðan hefur áhrif til hækkunar verðbólgu. Flutningskostnaður hækkar og um leið verð vöru og þjónustu. Skatturinn hefur hækkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar. 
Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur gefið út skýrslu um áhrif kolefnisgjalds á eldsneytisnotkun heimilanna. Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni og vekur undrun hversu litla athygli fjölmiðlar hafa sýnt henni.
    Helstu niðurstöður eru þessar:
     1.      Skatturinn bitnar á efnalitlu fólki og hefur neikvæð áhrif á kjör þeirra og neyslu.
     2.      Rökstyðja þarf betur hvers vegna skatturinn er lagður á.
     3.      Skatturinn þarf að vera mjög hár til þess að virka.
     4.      Landsframleiðsla og atvinna minnkar eftir að kolefnisskatturinn er lagður á.
Skýrslan er áfellisdómur yfir kolefnisskattstefnu ríkisstjórnarinnar og staðfestir það sem Miðflokkurinn hefur ávallt sagt um þennan skatt. Það er ekki forsvaranlegt að leggja skatt á almenning með þessum hætti þegar árangurinn er enginn og hann bitnar verst á tekjulágu fólki og íbúum á landsbyggðinni.

Heildstæð stefna verður að liggja fyrir um hvernig Ísland ætlar að nota kolefnisgjöld í baráttunni við loftslagsbreytingar án þess að þær bitni á tekjulægstu hópunum, landsbyggðinni eða samkeppnishæfni atvinnugreina og dragi þróttinn úr hagkerfinu. Lækkun á kolefnisgjaldinu dregur úr verðbólguþrýstingi með lækkun á verði eldsneytis. Miðflokkurinn flutti breytingartillögu við frumvarp til breytinga á ýmsum lögum í tengslum við fjárlög þess efnis að hækkun á kolefnisgjaldinu kæmi ekki til framkvæmda á næsta ári og að skatturinn yrði endurskoðaður í ljósi skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands. Tillagan var því miður felld.

Stuðningur við mikilvægt starf SÁÁ.

Áhrif veirufaraldursins á tekjuöflun SÁÁ hafa verið mikil og áhrifanna gætir ekki einungis hjá sjúklingum sem fara í meðferð á sjúkrahúsinu Vogi heldur einnig hjá aðstandendum. Miðflokkurinn telur að líta beri á Vog sem hluta af vistunarkeðju sem er í senn hluti af þeirri bráðaþjónustu, meðferðarþjónustu og eftirmeðferð sem íslenska heilbrigðiskerfið veitir. Fáar fjölskyldur eiga ekki einhvern ættingja eða vin sem hefur glímt við áfengis- eða fíkniefnavandamál.

3. minni hluti leggur til breytingartillögu við frumvarpið um 300 millj. kr. aukaframlag til SÁÁ.

Krafa um hagræðingu í rekstri ráðuneyta.

Miðflokkurinn leggur áherslu á hagræðingu í ríkisrekstri og að dregið verði úr ríkisbákninu, sem hefur vaxið hratt í tíð þessarar ríkisstjórnar.   Ráðdeild og skilvirkni á ávallt að ríkja við meðferð almannafjár. Engar tilraunir hafa verið gerðar til þess að draga úr ríkisumsvifum af hálfu þessarar ríkisstjórnar. Er það þvert á það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðað fyrir hverjar kosningar.

3. minni hluti flytur breytingartillögu við fjármálafrumvarpið fyrir árið 2021 sem miðar að því að draga úr ríkisbákninu og gera kröfu um hagræðingu sem nemur 5% í rekstri allra ráðuneyta. Hagræðingin skilar ríkissjóði sparnaði upp á 500 millj. kr.
Hér fyrir neðan er tafla sem sýnir þá hagræðingarkröfu sem Miðflokkurinn gerir á öll ráðuneyti í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið.
         

Heiti Framlag í frv. 2021 Hagræðing 5%
Forsæt­isráðuneyti, aðalskrif­stofa 942,0 47,1
At­vinnu­vega- og nýsköp­un­ar­ráðuneyti, aðalskrif­stofa 1.212,6 60,6
Dóms­mál­aráðuneyti, aðalskrif­stofa 627,8 31,4
Félags­mál­aráðuneyti, aðalskrif­stofa 803,3 40,2
Fjármála- og efna­hagsráðuneyti, aðalskrif­stofa 1.404,1 70,2
Heil­brigðisráðuneyti, aðalskrif­stofa 942,9 47,1
Mennta- og menn­ing­armál­aráðuneyti, aðalskrif­stofa 1.148,0 57,4
Sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­arráðuneyti, aðalskrif­stofa 598,8 29,9
Um­hverf­is- og auðlind­aráðuneyti, aðalskrif­stofa 734,7 36,7
Ut­an­rík­isráðuneyti, aðalskrif­stofa 1.567,1 78,4
Samtals: 9.981,3 499,1


Tollgæsla, fíkniefnaeftirlit og tollaframkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum.

Aukið fíkniefnaeftirlit á landamærum skilar árangri. Styrkja þarf tollgæslu í baráttunni gegn innflutningi vímuefna. Jafnframt þarf að bregðast við auknum vanda sem steðjar að einstaklingum og fjölskyldum sem verða fíkniefnum að bráð.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að auka fjárveitingar til þessa mikilvæga málaflokks. 3. minni hluti flytur breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið þess efnis að sérstakt aukaframlag upp á 250 millj. kr. fari til embættis tollstjóra. Upphæðin skiptist þannig: A. 200 millj. kr. til þess að auka fíkniefnaeftirlit tollgæslunnar á landsvísu og bæta öryggi á landamærum hvað fíkniefnaeftirlit varðar. Vísbendingar eru um að framboð fíkniefna hafi aukist hér á landi á undanförnum misserum og þau verði sífellt sterkari og er það mikið áhyggjuefni. B. 50 millj. kr. til þess að hraða vinnu við rannsókn og leiðréttingu á misræmi í tollaframkvæmd á innfluttum landbúnaðarvörum.

Skógrækt helsta mótvægisaðgerð Íslands í loftslagsmálum.

Skógrækt er ein af helstu mótvægisaðgerðum Íslendinga í loftslagsmálum. Skógrækt getur orðið veigamikill þáttur í loftslagsaðgerðum Íslands fái greinin nægilegt fjármagn. Að auki skapast fjölmörg störf til framtíðar, aðallega í dreifbýli. Ræktun nýrra skóga er ein mikilvægasta náttúrulega aðgerðin sem heimsbyggðin hefur tiltæka í baráttunni við loftslagsvandann. Nýskógrækt dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá rofnu landi og bindur kolefni í jarðvegi.

Þriðji minni hluti leggur fram breytingartillögu við frumvarpið þess efnis að framlag til skógræktar verði hækkað um 100 millj. kr.

Upptöku af flutningsræðu Birgis í þingsal má sjá hér.