B(r)ókun 35

Það vakti athygli Miðflokksins að á dögunum dreifði utanríkisráðherra frumvarpi á Alþingi sem virtist við fyrstu sýn voðalega saklaust. Frumvarpið heitir „Evrópska efnahagssvæðið (bókun 35)“ og ber þannig í engu með sér grafalvarleika málsins sem þar er á ferðinni.

Bókun 35 sem gárungarnir eru farnir að kalla „brókun 35“ gengur út á það að Ísland leggist flatt fyrir erlendum rétti sem því er uppálagt að innleiða í gegnum EES-samninginn. Evrópusambandið er þarna að tryggja að sú löggjöf sem þeir telja að gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu renni óáreitt inn í íslenskan rétt og verði þar samstundis æðri íslenskum lögum ef efnisatriði stangast þar á. Þannig hefur það alls ekki verið – íslenskur réttur hefur ávallt verið rétthærri en sá innleiddi, eðlilega.

Hingað til hefur það verið alger löstur á vinnu Alþingis hvað innleidd löggjöf rennur ágreiningslaust og umræðulaust í gegnum þingið að samþykkisstimplinum og ákaflega litlar líkur á því að það breytist.

Frumvarp ráðherra Sjálfstæðisflokksins er aðeins ein grein auk gildistökuákvæðis. Í greininni segir: „Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.“ Ráðherrann sagði svo í viðtali á dögunum að ef „þingið ætlar sér að hafa öðruvísi reglur (en Evrópureglurnar) þá þurfi að taka það fram og það hafi þá sínar afleiðingar. Þar kom það. Ætli ráðherrann sé hræddur við afleiðingar frá Brussel?

Og hvers vegna stendur ráðherrann í þessu rugli? Jú því ESA, eftirlitsstofnun EFTA, skrifaði bréf tæpum þremur áratugum eftir að þessi bókun 35 var innleidd og telur að ekki hafi verið rétt staðið að henni og nú þurfi Íslandi að gera umræddar breytingar.

Það gleymist kannski að meginforsenda þess að Ísland gekkst undir EES-samninginn á sínum tíma var að ef löggjöf á grundvelli samningsins færi í bága við hagsmuni þjóðarinnar eða ætti ekki við á Íslandi gætu stjórnvöld hafnað regluverkinu. Þessi varðstaða fyrir íslenska hagsmuni hefur algjörleg farið fyrir ofan garð og neðan.

Stjórnvöld lyppast nú niður með óskiljanlegum hætti. Þau beygja sig undir pólitísk sjónarmið starfsmanna hjá ESA.

Það væri óskandi ef íslensk stjórnvöld sýndu dug og þor fyrir íslenska þjóð og hennar hagsmuni. Hagsmunir þjóðarinnar eru einfaldlega ekki þeir að hér gildi erlend og oft mjög íþyngjandi löggjöf framar íslenskum lögum um íslenskan veruleika. Það er í besta falli hallærislegt að Ísland leggist svona flatt og í versta falli stórkostlega skaðlegt. Eins og hefðbundin brókun.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 12. apríl, 2023.