Bruðl, bákn og borgarlína

Bruðl, bákn og borgarlína

 
Í umræðu á Alþingi um sam­göngu­áætlun og sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins sl. vor dró Miðflokk­ur­inn fram marga ágalla við und­ir­bún­ing svo­kallaðrar borg­ar­línu.
Miðflokk­ur­inn krafðist ábyrgðar og festu í fjár­mál­um af hálfu rík­is og sveit­ar­fé­laga við þessa fram­kvæmd. Sam­fylk­ing­ar­flokk­arn­ir kölluðu mál­flutn­ing okk­ar málþóf, enda óþægi­legt að vera tek­inn í ból­inu með drauma­verk­efni sitt og fá ekki næði til að sólunda al­manna­fé í lítt ígrunduð gælu­verk­efni.

Borg­ar­lína er í raun gam­aldags fyr­ir­brigði sem heyr­ir liðinni tíð og er ekki lausn sem hent­ar í sam­göng­um nú­tím­ans. Sjálf­virk ljós­a­stýr­ing, raf­bíla­væðing og sjálf­keyr­andi bif­reiðar eru hand­an við hornið með minni meng­un, minni hávaða og greiðari um­ferð.

Í sátt­mál­an­um eru einnig ákvæði um að ráðast í ýms­ar aðrar nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í sam­göngu­mál­um höfuðborg­ar­svæðis­ins, svo sem úr­bæt­ur á helstu sam­gönguæðum þess.

All­ir sem fara um gatna­kerfi höfuðborg­ar­inn­ar finna fyr­ir því hve illa geng­ur að kom­ast leiðar sinn­ar. Til þess að fá þess­ar fram­kvæmd­ir inn í sátt­mál­ann sætt­ist stjórn­ar­meiri­hlut­inn á Alþingi á að samþykkja borg­ar­línu­verk­efnið, án þess að fyr­ir lægi hversu mikið það mun kosta eða yf­ir­leitt hvernig ætti að reka það. Slík vinnu­brögð eru óá­byrg og óverj­andi.

Blekið var varla þornað á frum­varp­inu þegar meiri­hlut­inn í borg­inni var far­inn að slá í og úr með að standa við sinn hluta sátt­mál­ans, enda kunn­ur að því að standa ára­tug­um sam­an gegn Sunda­braut og flug­vell­in­um í Vatns­mýri.

Þá munu þeir fyr­ir­var­ar og skil­yrði sem sett voru inn í málið af hálfu Miðflokks­ins á Alþingi reyn­ast nota­drjúg, auk þess sem Alþingi mun þurfa að samþykkja sam­göngu­áætlun og ráðstöf­un fjár til sam­göngu­verk­efna.

Sunda­braut er verk­efni sem borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn hef­ur æ ofan í æ sett fót­inn fyr­ir, þrátt fyr­ir að sú sam­göngu­bót hafi verið til at­hug­un­ar ára­tug­um sam­an og bæti bæði leiðir að borg­inni fyr­ir íbúa vest­an og norðan henn­ar, stór­auki ör­yggi sem flótta­leið út úr borg­inni og hafi í för með sér að opnað er fyr­ir mörg hag­kvæm ný bygg­ing­ar­svæði.

Í efna­hagsþreng­ing­un­um fram und­an er mik­il­vægt að gætt sé aðhalds í út­gjöld­um hins op­in­bera. Að ráðast í eina stærstu fram­kvæmd hér­lend­is um ára­bil, byggt á lítt út­færðum fram­kvæmda­áætl­un­um og án rekstr­aráætl­un­ar, er veru­lega óá­byrgt.

Umræðurn­ar um sam­göngu­áætlun á Alþingi í sum­ar staðfesta að Miðflokk­ur­inn einn flokka hafði þrek til að standa gegn óráðsíu vinstri­flokk­anna í sam­göngu­mál­um höfuðborg­ar­svæðis­ins. 

 

Höf­und­ur: Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks­ins og sit­ur í um­hverf­is- og sam­göngu­nefnd.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 9. september, 2020