Brýnt afnám óhæfilegra skerðinga

Löngu er ljóst að skerðing­ar á bót­um al­manna­trygg­inga fara fram úr öllu hófi.  Þetta fyr­ir­komu­lag, sem virðist gert af miklu hug­viti, er í senn fallið til að meina eldra fólki að bæta hag sinn með auk­inni vinnu í krafti eðli­legr­ar sjálfs­bjarg­ar­viðleitni og að hvetja til svartr­ar at­vinnu­starf­semi. 
Yngvi Örn Krist­ins­son hag­fræðing­ur birti í sum­ar grein um efnið þar sem niðurstaða hans er að sam­an­lögð skerðing og skatt­lagn­ing tekna á tekju­bil­inu 25 þús. til 570 þús. króna nemi 93,8%.  Öllum má ljóst vera að þetta hlut­fall nær engri átt og rifjar upp al­ræmt 95% skatt­hlut­fall í Bretlandi á sín­um tíma sem sætti gagn­rýni sem vakti heims­at­hygli.  Eng­um þjóðfé­lags­hópi öðrum yrði gert að þola svo hörð kjör sem hér er boðið upp á.
 

Sé ein­stak­ling­ur með at­vinnu­tekj­ur hefjast skerðing­ar bóta al­manna­trygg­inga við krón­ur 100 þús. á mánuði.  Þessi tala er allt of naum­lega skömmtuð.  Gjalda ber var­hug við aðgerðum sem vinna gegn sjálf­sagðri sjálfs­bjarg­ar­viðleitni fólks til að bæta hag sinn.  Vel er þekkt að málið snýr að lýðheilsu og fé­lags­leg­um þátt­um þar sem fólki gefst kost­ur á virkri þátt­töku í at­vinnu­lífi og sam­fé­lagi.  Af hálfu fjár­málaráðuneyt­is hef­ur verið haldið fram að kostnaður rík­is­sjóðs við að slaka á klónni í þessu efni sé millj­arðar króna.  Þær full­yrðing­ar styðjast ekki við gild­an rök­stuðning.  Fyr­ir ligg­ur skýrsla dr. Hauks Arnþórs­son­ar um fjár­hags­lega stöðu aldraðra unn­in fyr­ir Fé­lag eldri borg­ara dag­sett í nóv­em­ber 2017 þar sem ít­ar­lega er rök­stutt að kostnaður rík­is­sjóðs af því að fella brott þetta 100 þúsund króna viðmið sé ekki svo mikið sem króna.

Þeir þætt­ir sem skýrslu­höf­und­ur dreg­ur fram eru tekju­skatt­ur af aukn­um vinnu­tekj­um og veltu­gjöld, virðis­auka­skatt­ur og vöru­gjöld, auk sam­fé­lags­legra áhrifa.  Ekki hafa verið born­ar brigður á út­reikn­inga Hauks.

Miðflokk­ur­inn legg­ur áherslu á að fast verði tekið á skerðing­um bóta eins og hér hef­ur verið rakið.  Þess­ar skerðing­ar hafa grafið und­an til­trú á líf­eyri­s­kerf­inu og skilja aldrað lág­launa­fólk eft­ir jafn­sett og fólk sem ekk­ert hef­ur greitt í líf­eyr­is­sjóð á starfs­aldri.

Þá vill Miðflokk­ur­inn að öldruðum sé gert kleift að búa á heim­il­um sín­um sem lengst. Til þess þarf að efla heimaþjón­ustu við aldraða.  Jafn­framt þurfa að vera fyr­ir hendi viðun­andi hús­næðisúr­ræði þegar slíks er ekki leng­ur kost­ur þrátt fyr­ir stuðning heima fyr­ir.  Miðflokk­ur­inn tel­ur brýnt að gang­ast fyr­ir átaki til að reisa hjúkr­un­ar­heim­ili fyr­ir aldraða sem mæti þeirri þörf sem fyr­ir hendi er á hverj­um tíma, m.a. með breyt­ing­um á lög­um um Fram­kvæmda­sjóð aldraðra.  Aldraðir sem skilað hafa ævi­starfi sínu eiga skilið að búa við góð kjör og ör­yggi. 

 

Höf­und­ur: Ólafur Ísleifsson, alþing­ismaður Miðflokks­ins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 9. október, 2019