Nýtt þjóðarsjúkrahús á Keldum

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á Keldum.

Meginmarkmið þessarar tillögu Miðflokksins er að undirbúningur verði hafinn að uppbyggingu nýs sjúkrahúss á Keldnalandi í Reykjavík sem hafi m.a. það hlutverk að vera aðalsjúkrahús landsins. Er jafnframt lagt til að kannaður verði fýsileiki þess að húsnæði Landspítalans við Hringbraut verði nýtt sem umdæmissjúkrahús höfuðborgarsvæðisins.

Á árunum 2001–2008 skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.   Í skýrslu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknastofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015, kom m.a. fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning þjóðarsjúkrahúss og að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður.   Í úttekt samtaka um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og rekstur nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði: viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti útreikningana miðað við gefnar forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.
 
Mikilvægt er að fyrir liggi þarfa- og kostnaðargreining m.a. út frá gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismálum. Gert er ráð fyrir að við þá vinnu muni ráðherra hafa samráð við óháða fagaðila, svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Niðurstöðurnar þyrfti að gera aðgengilegar fyrir allan almenning og stjórnmálamenn þannig að glögglega megi átta sig á hvernig fyrirhuguð staðsetning þjóðarsjúkrahúss á Keldum kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.
 
Flutningsmaður tillögunnar er Anna Kolbrún Árnadóttir, en allir þingmenn Miðflokksins eru meðflutningsmenn hennar.
 
 
  • " style="display: inline-block; line-height: 1; vertical-align: bottom; padding: 0px; margin: 0px; text-align: center;">