Dauði „þungu“ Borgarlínunnar

Liðin vika hefur ekki verið hagfelld borgarlínudraumum borgarstjórans í Reykjavík. Útfærsla Borgarlínunnar úr Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem samþykktur var í september 2019 hefur sætt mikilli gagnrýni af hálfu þeirra sem nú bjóða fram krafta sína til sveitarstjórna á höfuðborgarsvæðinu. Eðlilega. Fjórir af fimm bæjarstjórum á höfuðborgarsvæðinu sem samþykktu sáttmálann á sínum tíma hafa ákveðið að víkja af hinu pólitíska sviði á sama tíma og eru því straumhvörf væntanleg í þessum málum.

Uppbygging Borgarlínunnar hefur hingað til verið á sjálfsstýringu og markmiðið verið að uppfylla villtustu drauma borgarstjórans, með stuðningi Sjálfstæðisflokksins, en að mestum hluta á kostnað ríkissjóðs. Þetta virðingarleysi gagnvart fjármunum fólks í landinu er ótrúlegt og nú eru æ fleiri að vakna gagnvart óráðsíunni og því tengslarofi við raunveruleikann sem felst í áætlunum um Borgarlínu.

Í Dagmálaþætti Morgunblaðsins 10. mars sl. kom fram afstaða nýs oddvita sjálfstæðismanna í Kópavogi sem er allrar athygli verð. Af orðum hennar er ljóst að ekki verður haldið áfram á núverandi braut, braut borgarstjórans í Reykjavík með nokkrar vinnandi hendur Sjálfstæðisflokksins að ýta vagninum áfram

Í gær, 16. mars, mættu svo oddvitaefni Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í Dagmál og tjáðu sig með þeim hætti að ljóst má vera að lausn borgarstjórans í Reykjavík og nálgun hans á borgarlínuframkvæmdir njóta ekki stuðnings oddvitaefna flokksins.

Í millitíðinni, 15. mars sl., hafði framkvæmdastjóri Betri samgangna ohf. mætt í Dagmál og upplýst að tímalínan varðandi uppbyggingu Borgarlínu væri nú þegar farin að hliðrast verulega og áætlanirnar hafi verið óraunhæfar frá upphafi. Enn er til dæmis beðið eftir rekstraráætlun og með öllu óvíst hvenær hún lítur dagsins ljós.

Þessi staða skapar dýrmætt tækifæri. Það er nefnilega önnur leið til að stórbæta almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu – hún er miklu ódýrari en borgarlínuleið borgarstjórans í Reykjavík og þrengir ekki með sama hætti að annarri umferð. Flest erum við fylgjandi góðum almenningssamgöngum á meðan fæst okkar eru fylgjandi því einelti sem fjölskyldubíllinn og ríkissjóður hafa orðið fyrir í þeim hugmyndum sem unnið hefur verið að í tengslum við Borgarlínu.

Það er ekki of seint að breyta um kúrs þegar kemur að bættum almenningssamgöngum. Velja leið „léttari“ Borgarlínu sem skilar svipuðum gæðum en fyrir mun minni pening og er ekki á kostnað fjölskyldubílsins – virða fólkið sem býr í borginni og þess val á ferðamátum. Þeir sem borga skattinn sem fer í þessa uppbyggingu munu þakka þeim fulltrúum sem standa í lappirnar gegn fjáraustri og velja raunhæfar leiðir í stað skýjaborga Dags Bergþórusonar Eggertssonar.

Bergþór Ólason, alþingismaður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 17. mars, 2022.